Hoppa yfir valmynd
1. desember 2021 Utanríkisráðuneytið

Þórdís Kolbrún tók þátt í utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir á fundi Atlantshafsbandalagsins í dag - myndNATO

Fjölþáttaaðgerðir og hernaðaruppbygging Rússlands á landamærum Úkraínu og ástandið á landamærum Belarús og grannríkja voru efst á baugi á tveggja daga utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins sem lauk í Ríga nú síðdegis. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í fundinum en þetta er fyrsti viðburðurinn sem hún tekur þátt frá því hún tók við embætti sínu í vikubyrjun.

Meðal helstu umræðuefna á utanríkisráðherrafundinum í Ríga voru umfangsmikil hernaðaruppbygging Rússlands og fjölþáttaaðgerðir við landamæri Úkraínu og tilraunir stjórnvalda í Belarús til skapa óstöðugleika í fjölþáttaaðgerðum sínum gegn Póllandi, Litáen og Lettlandi. Lýstu bandalagsríkin yfir áhyggjum af stöðunni, mikilvægi þess að Rússar dragi úr spennu á svæðinu og að Belarús stöðvi aðgerðir sínar og virði mannréttindi og alþjóðalög.

Utanríkisráðherrarnir ræddu jafnframt mótun nýrrar grunnstefnu, sem verður lögð fyrir leiðtogafund bandalagsins í Madrid í júní 2022. Stefnan endurspeglar þær breytingar sem orðið hafa á öryggisumhverfi bandalagsríkja og mun tryggja að bandalagið verði sem best í stakk búið til að bregðast við krefjandi og fjölbreyttum áskorunum. Þá ræddu ráðherrar um leiðir til að styðja frekar við hlutverk bandalagsins á sviði afvopnunarmála.

„Grunnstefna bandalagsins er mikilvægur vegvísir í öllu starfi þess. Ég lagði áherslu á  öryggismál í Evrópu og á Norður-Atlantshafi og sameiginlegar skuldbindingar bandalagsríkja. Eins að bandalagið þurfi að bregðast við öryggisáskorunum vegna loftslagsbreytinga og vera virkur samráðsvettvangur um afvopnunarmál. Þá er brýnt að jafnréttissjónarmið og málefni kvenna, friðar og öryggis verði í hávegum höfð, ásamt þeim sameiginlegu gildum og samstöðunni sem bandalagið stendur fyrir,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Staða og horfur í öryggismálum voru í deiglunni á fundi ráðherranna með Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, og David Zalkaliani, utanríkisráðherra Georgíu. Úkraína og Georgía eru í hópi nánustu samstarfsríkja bandalagsins. Bandalagið hefur um árabil stutt við lýðræðisumbætur og uppbyggingu í öryggismálum ríkjanna og hafa þau að sama skapi lagt af mörkum til bandalagsins með þátttöku í aðgerðum og verkefnum þess.

Sá lærdómur sem draga má af hartnær tuttugu ára aðgerðum Atlantshafsbandalagsins í Afganistan var einnig til umfjöllunar ráðherranna í dag. Áhersla er lögð á að koma í veg fyrir frekari öfugþróun í landinu eftir valdatöku talibana og sagði ráðherra mikilvægt að bregðast við versnandi mannúðaraðstæðum Afgana. Alþjóðasamfélagið þarf að taka höndum saman um að verja þau mannréttindi sem Afgönum hafa verið tryggð, þar á meðal réttindi kvenna, stúlkna og minnihlutahópa. Þá megi Afganistan ekki verða á ný griðastaður hryðjuverkasamtaka.

Samstarf Atlantshafsbandalagsins og ESB var í forgrunni umræðu um málefni Vestur-Balkanskaga og viðbrögð við vaxandi óróa og ótryggu öryggisástandi á þessu svæði. Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar og Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB tóku þátt í fundinum. Á fundinum kom fram skýr vilji til að styðja betur við ríki á þessu svæði. „Órói og tilraunir til að valda óstöðugleika á svæðinu snerta öryggi bandalagsríkja með beinum hætti. Samstarf bandalagsins og ESB er mikilvægt í þessu samhengi og það er fagnaðarefni hve náið samstarfið er við okkar nágranna- og vinaþjóðir, Finnland og Svíþjóð,“ segir Þórdís Kolbrún.

Utanríkisráðherra átti jafnframt tvíhliða fundi með Sophie Wilmès, utanríkisráðherra Belgíu, Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litáens, José Manuel Albares Bueno, utanríkisráðherra Spánar, og Zbigniew Rau, utanríkisráðherra Póllands. Á öllum fundunum voru samskipti ríkjanna rædd, einkum með tilliti til sóknartækifæra, sem og þau málefni sem hæst ber á alþjóðavettvangi.

  • Þórdís Kolbrún ásamt þeim Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands, og Jens Stoltenberg, frkvstj. Atlantshafsbandalagsins
  • Utanríkisráðherrar bandalagsríkjanna
  • Þórdís Kolbrún og Sophie Wilmès, utanríkisráðherra Belgíu
  • Þórdís Kolbrún og Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litáens.
  • Þórdís Kolbrún og Zbigniew Rau, utanríkisráðherra Póllands
  • Þórdís Kolbrún og José Manuel Albares, utanríkisráðherra Spánar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira