Hoppa yfir valmynd
3. desember 2021 Utanríkisráðuneytið

Þórdís Kolbrún áréttaði sameiginlegar skuldbindingar ÖSE-ríkjanna

Ráðherrar þátttökuríkja ÖSE. Þórdís Kolbrún er í fremstu röð, lengst til vinstri. - myndÖSE

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í ráðherrafundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) 2.-3. desember í Stokkhólmi. Öryggisáskoranir og staða mannréttinda á svæðinu voru meginviðfangsefni fundarins.

Þórdís Kolbrún lagði í ræðu sinni áherslu á að þátttökuríkin 57 virtu sameiginlegar skuldbindingar og tækju saman höndum um að vinna að friði og stöðugleika þar sem blikur væru á lofti víða í álfunni. Hún benti á að stöðugleiki landamæra, friðsamleg úrlausn deilumála, og vernd mannfrelsis og mannréttinda væru grundvöllur stofnunarinnar.

„Kjarninn í starfi þessarar stofnunar er að efla öryggi og stöðugleika á ÖSE-svæðinu. Sem þátttökuríki að ÖSE berum við öll ábyrgð á að standa við þessar skuldbindingar,“ sagði Þórdís Kolbrún í ávarpi sínu.

Auk þátttöku í ráðherrafundinum átti Þórdís Kolbrún fund með Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu þar sem ástandið í Úkraínu var efst á baugi en þau undirrituðu jafnframt nýjan loftferðasamning á milli ríkjanna. Á fundi þeirra Thomas Byrne Evrópumálaráðherra Írlands voru það samskipti ríkjanna og ný stefna Írlands um samskipti við Norðurlönd sem bar hæst. Að lokum hitti hún Jeyhun Bayramov utanríkisráðherra Aserbaídsjan, þar sem þau ræddu um umhverfismál og nýtingu jarðhita.

Ráðherra notaði tækifærið á fundum sínum til að ræða formennsku Íslands í Evrópuráðinu sem hefst í nóvember árið 2022. Átti Þórdís Kolbrún einnig stuttan fund með Sviatlönu Tsikhanouskaju, stjórnarandstöðuleiðtoga frá Belarús.

  • Þórdís Kolbrún og Jeyhun Bayramov, utanríkisráðherra Aserbaídjsan
  • Þórdís Kolbrún og Thomas Byrne, Evrópumálaráðherra Írlands
  • Þórdís Kolbrún og Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, undirrituðu loftferðasamninginn í dag
  • Þórdís Kolbrún og Svietlana Tsikhanouskaja

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira