Hoppa yfir valmynd
7. desember 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Hjúkrunardeild fyrir covid-sjúklinga opnuð tímabundið á Eir

Heimsókn heilbrigðisráðherra á nýja dagdeild Eirar á Höfðabakka - myndStjórnarráðið

Í dag verður opnuð á hjúkrunarheimilinu Eir sérstök hjúkrunareining fyrir covid-sjúklinga. Deildin er einkum hugsuð sem sérstakt úrræði fyrir íbúa á hjúkrunarheimilum sem veikjast af völdum Covid-19 og þurfa á sólarhringsumönnun að halda og einnig aldraða sem geta ekki haldið einangrun heima og þurfa umönnun. Hjúkrunardeildin er í húsnæði þar sem Eir hefur rekið dagdvöl fyrir 24 aldraða. Til að gera þetta mögulegt var dagdvölinni fundið annað húsnæði við Höfðabakka 9. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnti sér aðstæður í nýju húsnæði dagdvalarinnar fyrir helgi og ræddi við starfsfólk og stjórnendur.

Willum segir mikilvægt að nú sé til reiðu þessi hjúkrunareining á Eir ef á þurfi að halda. Hún verður einungis notuð fyrir covid-sjúklinga sem eru ekki alvarlega veikir og þurfa ekki á spítalaþjónustu að halda þótt sólarhringsumönnun sé nauðsynleg. „Þetta er enn ein aðgerðin sem heilbrigðisyfirvöld ráðast í til að létta álagi af Landspítala og tryggja að þar þurfi ekki að liggja ekki inni sjúklingar sem hægt er að sinna annars staðar með fullnægjandi þjónustu.

Nýtt húsnæði fyrir dagdvöl Eirar á Höfðabakka er bjart og rúmgott á einni hæð og með góðu aðgengi fyrir þjónustuþega. Gera þurfti nokkrar breytingar á húsnæðinu til að skapa góðar aðstæður fyrir starfsemina en Íslandsbanki var þar áður til húsa. Þar sem húsnæðið á Höfðabakka er hentugt og rúmgott er til skoðunar hvort mögulegt sé að hafa þar enn fjölbreyttari þjónustu fyrir aldraða sem styður markmið um að efla og bæta þjónustu sem styður við sjálfstæða búsetu aldraðra í heimahúsum sem lengst.

  • Heimsókn heilbrigðisráðherra á nýja dagdeild Eirar á Höfðabakka - mynd
  • COVID-19: Hjúkrunardeild fyrir covid-sjúklinga opnuð tímabundið á Eir - mynd úr myndasafni númer 2
  • COVID-19: Hjúkrunardeild fyrir covid-sjúklinga opnuð tímabundið á Eir - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum