Hoppa yfir valmynd
9. desember 2021 Utanríkisráðuneytið

50 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Kína fagnað

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, lagði áherslu á gott samband Íslands og Kína á mörgum sviðum í ávarpi sem flutt var í hátíðarmóttöku í sendiráði Íslands í Peking í gær. 50 ár eru nú liðin síðan Ísland og Alþýðulýðveldið Kína tóku upp stjórnmálasamband. 

Sendiráð Íslands í Peking hélt hátíðarmóttöku í gærkvöldi í tilefni af 50 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína. Þar var kastljósinu varpað á sögu stjórnmálasamskipta Íslands og Kína, vaxandi tengsla landanna í gegnum viðskipti og samvinnu á ýmsum sviðum sem og tækifæri til áframhaldandi samskipta og samstarfs. 
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Íslands og Deng Li, varautanríkisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína, fluttu hátíðaræður, en vegna heimsfaraldursins voru ávörpin í myndbandsformi.  

Í ávarpi sínu undirstrikaði Þórdís Kolbrún sterkt viðskiptasamband ríkjanna og vaxandi samstarf þeirraá sviði jarðhita og kolefnisendurvinnslu væri mikð ánægjuefni. „Samvinna okkar á sviði jarðvarmanýtingar og kolefnisbindingar getur haft mikilvæga þýðingu við að sporna við loftslagsbreytingu. Um leið og Kína hefur tekið þýðingarmikil skref í að viðhalda vexti og viðgangi hagkerfisins með grænum orkugjöfum er Ísland í kjörstöðu til að taka þátt í þeirri umbreytingu. Íslensk fyrirtæki hafa átt ríkan þátt í að beisla hreina og endurnýjanlega orkugjafa í Kína,“ sagði Þórdís Kolbrún í ávarpi sínu. 

Þá áréttaði ráðherra mikilvægi þess að efla fjölþjóðahyggju, standa vörð um alþjóðaviðskipti og uppfylla sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. 

Í ræðu sem Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Peking, flutti við þetta tækifæri undirstrikaði hann vaxandi tengsl ríkjanna sem birtust ekki síst í aukinni viðveru íslenskra fyrirtækja í Kína. Þá lagði sendiherrann áherslu á vaxandi samskipti almennra borgara, sem og samstarf á sviði ferðaþjónustu, menntamála og í menningarmálum, auk þess sem hann þakkaði þeim íslensku fyrirtækjum sem saman mynda félagsskapinn IBF (Icelandic Business Forum) fyrir gott og gagnmerkt samstarf.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira