Hoppa yfir valmynd
13. desember 2021 Dómsmálaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Svala Ísfeld kjörin í eftirlitsnefnd Evrópuráðsins gegn mansali (GRETA)

Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, hefur fyrst Íslendinga verið kjörin til setu í GRETA, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með samningi um aðgerðir gegn mansali. Ísland hefur nú eignast sína fyrstu fulltrúa í annars vegar eftirlitsnefnd GRETA með mansalssamningum og hins vegar eftirlitsnefnd GREVIO með Istanbúl-samningnum.

„Úttektarskýrslur GRETA hafa haft bæði mikil og jákvæð áhrif á stefnumótun og aðgerðaáætlanir í baráttunni gegn mansali á Íslandi. Þá voru þær hafðar til hliðsjónar þegar unnið var að endurskoðun og endurbótum á mansalsákvæði almennra hegningarlaga, sem varð að lögum snemmsumars,” segir Svala Ísfeld, sem var kjörin í eftirlitsnefndina á 28. fundi aðildarríkja samningsins hinn 4. júní síðastliðinn. „Það er mikill heiður að hljóta stuðning ríkja Evrópuráðsins til að halda áfram því þýðingarmikla starfi sem fram fer innan GRETA í þeim tilgangi að vinna gegn mansali í álfunni, tryggja réttindi og vernd fórnarlamba og stuðla að því að þeir sem bera ábyrgð verði sóttir til saka.”

Öll ríki Evrópuráðsins hafa fullgilt mansalssamning Evrópuráðsins að Rússlandi undanskildu. Til viðbótar hefur Belarús gerst aðili að samningnum ásamt Ísrael en með því varð Ísrael fyrsta landið utan Evrópu til að fullgilda mansalssamninginn. Ísland undirritaði mansalssamninginn í maí 2005 og fullgilti í febrúar 2012. Samningurinn tók gildi gagnvart Íslandi 1. júní 2012.

Sérfræðinganefnd GRETA (Group of Experts on Action against Trafficking in Human Beings) var stofnuð árið 2009 í samræmi við 36. gr. mansalssamningsins. Hún er skipuð fimmtán sjálfstæðum og óvilhöllum sérfræðingum frá jafnmörgum aðildarríkjum samningsins. GRETA hefur meðal annars það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins innan einstakra aðildarríkja og gera tillögur að umbótum eftir því sem þörf krefur. Nú stendur yfir þriðja úttekt GRETA á aðildarríkjum mansalssamningsins.

Ísland hefur nú eignast sína fyrstu fulltrúa í annars vegar eftirlitsnefnd GRETA með mansalssamningum og hins vegar eftirlitsnefnd GREVIO með Istanbúl-samningnum, en í nýliðinni viku var greint frá kjöri Maríu Rúnar Bjarnadóttur, lögfræðings hjá embætti ríkislögreglustjóra, í nefndina. Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira