Hoppa yfir valmynd
14. desember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Ísland tekur við formennsku í Haga-samstarfinu

Á norrænum ráðherrafundi þann 14. desember tók Jón Gunnarsson, ráðherra, við formennsku fyrir Íslands hönd í svonefndu Haga-samstarfi. Haga-samstarfið er samstarf Norðurlandanna um almannavarnir sem stofnað var til árið 2009 á ráðherrafundi í Haga fyrir utan Stokkhólm og hefur samstarfið síðan verið kennt við staðinn. Tilgangur Haga-samstarfsins er að efla öryggi almennings með því að auka og styrkja samstarf Norðurlanda um almannavarnir. Á vettvangi Haga hittast fulltrúar Norðurlandanna reglulega og ræða helstu áskoranir á því sviði hverju sinni. Ráðherrar sem bera ábyrgð á málaflokknum funda árlega og þróa nýjar samstarfsleiðir til að efla viðbragðshæfni samfélaganna við hættuástandi, slysum og hamförum, með það að markmiði að bæta samfélagsöryggi og borgaralegan viðbúnað á Norðurlöndum. Markmið Haga er að efla öryggi almennings með því að auka og styrkja samstarf Norðurlandanna um almannavarnir. Norðurlöndin skiptast á um að fara með formennsku í Haga í eitt ár í senn. Finnland hefur verið með formennskuna í ár en nú er röðin komin að Íslandi að taka við stjórnartaumunum.
Síðustu árin hafa Norðurlöndin á vettvangi Haga-samstarfsins meðal annars lagt áherslu á að vinna að frekari vörnum gegn skógareldum og ýmis konar ógnum sem stafa af eiturefnum, sýklum, geislun, kjarnorku eða sprengiefnum og eflingu neyðarfjarskipta. Á ráðherrafundi Haga 14. desember ákváðu ráðherrar Norðurlandanna að næstu tvö árin yrði lögð áhersla á áskoranir tengdar loftslagsbreytingum, móttöku og veitingu hjálparliðs á friðartímum og helstu aðgerðir stjórnvalda á sviði almannavarna í kjölfar Covid-19.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum