Hoppa yfir valmynd
15. desember 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ársverkum hjá ríkinu fækkað hlutfallslega miðað við íbúafjölda

Einstaklingum sem þiggja staðgreiðsluskyld laun hjá hinu opinbera hefur fjölgað um 7.300 frá september 2017, en ekki um 9.000 eins og fullyrt hefur verið í fréttum á síðustu dögum. Stöðugildum hefur fjölgað um 4.800 á þessu tímabili, en um helmingur fjölgunar starfa hjá hinu opinbera er hjá sveitarfélögum. Fjölgunin þar hefur verið mest í Reykjavík og er fyrst og fremst um að ræða störf við umönnun aldraðra og fatlaðra auk starfa í leikskólum.

Hjá ríkinu starfa að jafnaði rúmlega 23 þúsund starfsmenn í 19 þúsund stöðugildum. Á síðustu 10 árum hefur ársverkum þar fjölgað um 11,5%, en sett í samhengi við fjölgun íbúa á sama tíma sem var 16% hefur þeim fækkað nokkuð á hverja 1.000 íbúa. Þannig voru ríkisstarfsmenn 52,8 á hverja 1.000 íbúa árið 2011 og 50,8 árið 2021.

 

Faraldur ýkir tölfræði

Opinberum störfum hefur ekki fjölgað meira hlutfallslega en áður í efnahagslægðum og þau hafa til að mynda ekki náð sömu hlutdeild af heildarfjölda starfa á vinnumarkaði og þau náðu í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.
 

 

Þróunin hefur að jafnaði verið sú að þegar þrengir að á almennum markaði hefur hinu opinbera, sérstaklega sveitarfélögum, gengið betur að manna laus störf og má segja að það sé vísir að „sjálfvirkri sveiflujöfnun“ á vinnumarkaðnum að þessu leyti.

Hlutfall opinberra starfa hefur í gegnum árin hækkað í niðursveiflu og dæmið snúist við í uppsveiflu þegar fólk leitar frá hinu opinbera á almennan markað. Fjölgun starfandi á opinberum markaði er þó ýktari nú en áður vegna faraldursins sem kallaði á mikla fjölgun í ákveðnum störfum auk þess sem til urðu ný störf til í heilbrigðisþjónustunni. Má í þessu sambandi nefna störf við skimanir og bólusetningar bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Þá teljast, svo dæmi sé tekið, einstaklingar sem starfað hafa tímabundið í bakvarðasveit Landspítala með í þessum tölum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum