Hoppa yfir valmynd
16. desember 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Undirritun samnings um þjónustutengda fjármögnun Sjúkrahússins á Akureyri

Willum Þór Þórsson ásamt Maríu Heimisdóttur og Hildigunni Svavarsdóttur - myndHeilbrigðisráðuneytið

Klínísk starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri verður frá 1. janúar næstkomandi fjármögnuð í samræmi við umfang veittrar þjónustu þar sem byggt er á DRG; alþjóðlegu flokkunarkerfi sjúkdóma. Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri sjúkrahússins á Akureyri og María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga Íslands undirrituðu samninginn á Akureyri í gær. „Þetta er sambærilegur samningur og gerður var um fjármögnun Landspítala í haust og er byltingarkennd breyting á þeirri aðferðafræði sem beitt verður við fjármögnun þessarar mikilvægu heilbrigðisþjónustu. Ég er sannfærður um að þetta muni styrkja sjúkrahúsin og bæta alla ákvarðanatöku um úthlutun fjármuna og nýtingu þeirra, hvort sem við horfum til fjárveitingarvaldsins eða stofnananna sjálfra“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sem staðfesti samninginn að lokinni undirritun hans. Ráðherra fundaði við þetta tækifæri með stjórnendum sjúkrahússins og hitti einnig teymið sem vinnur að innleiðingu þjónustutengdrar fjármögnunar við SAk.

Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er sett markmið um að fjármögnun allrar sjúkrahússþjónustu verði þjónustutengd, enda séu greiðslukerfin þýðingarmikil tæki til að stýra þeim fjármunum sem varið er til heilbrigðisþjónustu í samræmi við þjónustuþörf. Þjónustutengd fjármögnun snýst um þetta með áherslu á markviss kaup á heilbrigðisþjónustu byggð á ítarlegri kostnaðar- og þarfagreiningu. 

Markmið og ávinningur 

  • Fjárveitingar taka mið af raunverulegu umfangi þjónustu og raunkostnaði.
  • Aukið gegnsæi við úthlutun fjármagns.
  • Auðveldara að gera áætlanir og setja markmið um magn þjónustu í samræmi við þörf þeirra sem á henni þurfa að halda.
  • Stuðlar að aukinni skilvirkni ásamt betra eftirlit með gæðum, umfangi og hagkvæmni þjónustunnar.

Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri: „Við erum mjög ánægð með þennan áfanga sem við höfum náð með mjög stuttum undirbúningstíma. Ljóst er að slíkur samningur hjálpar til við fyrirsjáanleika og skipulag þjónustu, stuðlar að hagkvæmni og er hvatning til að ná árangri.“

María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga Íslands: „Þessi samningur er sá fyrsti sem Sjúkratryggingar gera við heilbrigðisstofnun utan Reykjavíkur um þjónustutengda fjármögnun. Við sjáum sérstök tækifæri í því að nýta þau gögn sem gæðavottun SAk. felur í sér til að skoða tengsl  þjónustutengdrar fjármögnunar við gæði og árangur.“ 

Þjónustutengd fjármögnun sjúkrahússþjónustu er vel þekkt víða um heim og þessi aðferð hefur verið innleidd í flestum Evrópuríkjum. Þá hafa Norðurlandaþjóðirnar um árabil unnið saman að innleiðingu á sameiginlegu DRG flokkunarkerfi, svonefndu NordDRG, sem byggt er á við kostnaðargreiningu á Landspítala og við Sjúkrahúsið á Akureyri.

Ítarlega er fjallað um þjónustutengda fjármögnun ískýrslu ráðuneytisinsum aukna framleiðni og gæði heilbrigðisþjónustu með nýju fjármögnunarkerfi og leiðbeinandi viðmiðum sem birt var í nóvember í fyrra.

  • Frá undirritun samnings um þjónustutengda fjármögnun SAk - mynd
  • Frá undirritun samnings um þjónustutengda fjármögnun SAk - mynd
  • Frá undirritun samnings um þjónustutengda fjármögnun SAk - mynd
  • Frá undirritun samnings um þjónustutengda fjármögnun SAk - mynd
  • Frá undirritun samnings um þjónustutengda fjármögnun SAk - mynd
  • Frá undirritun samnings um þjónustutengda fjármögnun SAk - mynd
  • Frá undirritun samnings um þjónustutengda fjármögnun SAk - mynd
  • Undirritun samnings um þjónustutengda fjármögnun Sjúkrahússins á Akureyri   - mynd úr myndasafni númer 8

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum