Hoppa yfir valmynd
17. desember 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Flóttafólk frá Afganistan komið í öruggt skjól

22 einstaklingar frá Afganistan eru væntanlegir til landsins á þriðjudag en þeir lentu í morgun í Georgíu. Heildarfjöldi þeirra sem íslensk stjórnvöld hafa þá tekið á móti er 83. 40 einstaklingar sem fengu boð frá íslenskum stjórnvöldum þáðu boð um skjól í öðru ríki.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum þann 24. ágúst að taka á móti allt að 120 einstaklingum frá Afganistan vegna ástandsins sem skapaðist þar í landi í kjölfar valdatöku Talibana. Áhersla var lögð á þá sem unnu með eða fyrir Atlantshafsbandalagið, fyrrverandi nemendum alþjóðlega jafnréttisskólans á Íslandi (GRÓ-GEST) og einstaklinga sem áttu rétt á fjölskyldusameiningu eða voru þegar komnir með samþykkta umsókn um dvalarleyfi.

Stjórnvöld í Katar aðstoðuðu íslensk stjórnvöld við að koma hluta hópsins þangað þar sem fulltrúar frá íslenskum stjórnvöldum tóku á móti honum og fylgdi til Íslands. Alþjóðlega fólksflutningstofnunin, IOM, veitti einnig dýrmæta aðstoð, bæði við að aðstoða einstaklinga sem höfðu komist til grannríkjanna Írans og Pakistan, sem og til Georgíu nú. Félagsmálaráðuneytið, Útlendingastofnun og Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hafa átt í náinni samvinnu við stjórnvöld í Georgíu, Svíþjóð og Katar til að gera fólkinu kleift að komast hingað til lands og sameinast fjölskyldum sínum en um er að ræða flóknar aðgerðir sem krefjast mikillar samhæfingar þar sem huga þarf að öryggi allra.

Verkefni sem þetta krefst góðs samstarfs, bæði innanlands sem og utan, og hafa allir lagst á eitt við að koma fólkinu í öruggt skjól. Vilja íslensk stjórnvöld koma þökkum á framfæri við stjórnvöld í Katar, Georgíu, Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð fyrir ómetanlega aðstoð í þessu verkefni. Þá hefur Rauði krossinn unnið frábært starf í tengslum við verkefnið.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum