Hoppa yfir valmynd
21. desember 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Innanlandstakmarkanir hertar til að sporna við hraðri útbreiðslu smita

COVID-19: Innanlandstakmarkanir hertar til að sporna við hraðri útbreiðslu smita - myndStjórnarráðið

Almennar fjöldatakmarkanir verða 20 manns og nándarregla 2 metrar í stað 1 með ákveðnum undantekningum. Veitinga- og skemmtistöðum, krám og öðrum stöðum með vínveitingaleyfi ber að loka kl. 21 á kvöldin. Sund- og baðstöðum, líkamsræktarstöðvum og skíðasvæðum verður heimilt að taka á móti 50% af hámarksfjölda. Hraðprófsviðburðir verða takmarkaðir við 200 manns. Hvatt verður til fjarvinnu á vinnustöðum eins og kostur er. Þetta er megininntak hertra innanlandstakmarkana sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis til að sporna við hraðri útbreiðslu Covid-smita. Reglugerð þessa efnis tekur gildi fimmtudaginn 23. desember og gildir í þrjár vikur.

Smitum af völdum Covid-19 hefur fjölgað hratt hér á landi síðustu daga og eru nú að jafnaði um og yfir 200 á dag. Þann 18. desember sl. höfðu um 150 manns greinst með veiruafbrigðið ómíkron sem er a.m.k. helmingi meira smitandi en delta-afbrigðið. Það breiðist nú hratt út hjá grannþjóðum. Í Danmörku veldur það nú um 30% allra smita þar sem greinast nú milli  8.000 og 11.000 smit daglega. Innlögnum á sjúkrahús í Danmörku hefur fjölgað samhliða og stefnir í nýtt met segir í minnisblaði sóttvarnalæknis. Gera megi ráð fyrir að ómíkron verði allsráðandi í faraldrinum hér á landi á næstu vikum, líkt og í öðrum löndum. Þótt vísbendingar séu um vægari veikindi af völdum ómíkron en delta sé líklegt að vegna hraðrar útbreiðslu muni mikill fjöldi sjúklinga þurfa að leggjast inn á sjúkrahús þótt alvarleg veikindi séu fátíðari en af völdum annarra afbrigða. Enn fremur bendir sóttvarnalæknir á að samkvæmt rannsóknum sé lítil sem engin vernd af tveimur bólusetningum gegn ómíkron, verndin aukist umtalsvert með örvunarbólusetningu en óljóst sé hve góð sú vernd er og hve lengi hún varir. „Ég tel því óhjákvæmilegt að gripið verði til hertra sóttvarnaaðgerða innanlands eins fljótt og auðið er áður en aukning í smitum skapar hér neyðarástand á sjúkrahúsum og ýmsum innviðum“ segir sóttvarnalæknir. 

Meginefni nýrra sóttvarnareglna:

  • Almennar fjöldatakmarkanir 20 manns og börn ekki undanskilin.
  • Nándarregla 2 metrar. Börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin. Á veitingastöðum og meðal gesta á sitjandi viðburðum er nándarregla 1 metri milli sitjandi gesta.
  • Grímuskylda: Almennt er skylt að nota grímu ef ekki er hægt að virða 2 metra regluna og skylt er að bera grímu í verslunum og verslunarmiðstöðvum. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu.
  • Hraðprófsviðburðir: Með notkun hraðprófa er heimilt að halda skipulagða viðburði fyrir allt að 200 manns í sóttvarnahólfi.
  • Sitjandi viðburðir án hraðprófa: Hámarksfjöldi 50 manns. Sem dæmi má nefna sviðslistaviðburði, kvikmyndasýningar, íþróttaviðburðir og sitjandi athafnir trú- og lífskoðunarfélaga.
  • Verslanir og söfn mega taka á móti 50 manns í hverju hólfi að börnum meðtöldum. Fyrir hverja 10 m² umfram 100 m²  má bæta við fimm viðskiptavinum að hámarki 500 manns. Grímuskylda er í verslunum og verslunarmiðstöðvum.
  • Opnunartími veitingastaða o.fl.: Veitingahúsum og öðrum stöðum þar sem áfengisveitingar eru heimilar er óheimilt að hleypa inn nýjum viðskiptavinum eftir kl. 21.00 og allir gestir eiga að vera farnir hið síðasta kl. 22.00. Sama gildir um einkasamkvæmi á stöðum með vínveitingaleyfi. Nándarregla milli sitjandi gesta á veitingastöðum er 1 metri.
  • Sund- og baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði: Heimilt er að taka má móti 50% af hámarksfjölda gesta. Börn fædd 2016 og síðar teljast ekki með. 

Skólahald

  • Á öllum skólastigum miðast hámarksfjöldi barna/nemenda við 50 einstaklinga í rými.
  • Hámarksfjöldi starfsfólks í sama rými eru 20 manns og starfsfólki er heimilt að fara á milli rýma.
  • Nálægðarmörk: Almennt gildir 2 metra nálægðarregla, í kennslustofum skal leitast við að hafa minnst 1 metra milli nemenda í en að öðrum kosti ber nemendum í framhalds- og háskólum að bera grímu. Nálægðartakmarkanir taka ekki til barna á leikskólaaldri og ekki til starfsfólks í samskiptum við þau börn.
  • Grímuskylda: Almennt er skylt að nota grímu ef ekki er hægt að virða 2 metra regluna. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu.

Sviðslistir og kórastarf

  • Æfingar og sýningar með snertingu eru leyfðar fyrir allt að 50 starfsmenn á sviði. Grímur skal nota eftir því sem hægt er nema þegar listflutningur fer fram og leitast við að fylgja 2 metra reglunni.
  • Fjöldi sýningargesta: Heimilt er að taka á móti allt að 50 sitjandi gestum í hverju hólfi sem allir bera grímu og sitja í númeruðum sætum. Auk 50 fullorðinna mega vera 100 börn án hraðprófs í sama rými. Hægt er að taka á móti allt að 200 gestum sé fylgt reglum um hraðprófsviðburði. Viðhafa þarf 1 metra reglu milli sitjandi gesta.
  • Sýningarhlé: Heimilt er að gera hlé á sýningum en áhorfendur skulu hvattir til að halda kyrru fyrir í sætum sínum.
  • Áfengisveitingar eru óheimilar í tengslum við sýningar, hvort sem er fyrir, í hléi eða eftir.

Íþróttaæfingar og keppnir barna og fullorðinna eru heimilar, jafnt með eða án snertingar, fyrir allt að 50 manns. 

Fjarvinna

  • Hvatt er til fjarvinnu á vinnustöðum eftir því sem mögulegt er.

Reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar nr. 1484/2021

Minnisblað sóttvarnalæknis

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum