Hoppa yfir valmynd
21. desember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Einar Karl og Nanna skipuð í embætti héraðsdómara

Innanríkisráðherra hefur skipað Einar Karl Hallvarðsson, ríkislögmann í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang hjá Héraðsdómi Suðurlands frá 28. febrúar 2022 og Nönnu Magnadóttur, formann úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang hjá Héraðsdómi Reykjavíkur frá 3. janúar 2022.

Einar Karl Hallvarðsson lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1993 og öðlaðist málflutningsréttindi sem héraðsdómslögmaður árið 1994 og sem hæstaréttarlögmaður árið 1997. Hann hóf störf sem lögmaður við embætti ríkislögmanns árið 1994 og hefur verið skipaður ríkislögmaður frá september 2011. Á þessum tíma hefur hann flutt mikinn fjölda mála fyrir íslenska ríkið, þar á meðal fyrir Hæstarétti, Landsrétti, Félagsdómi og EFTA-dómstólnum. Frá árinu 2016 hefur hann jafnframt verið fyrirsvarsmaður ríkisins gagnvart Mannréttindadómstól Evrópu. Þá hefur Einar Karl gegnt stöðu dósents í lögfræði við Háskólann á Bifröst frá árinu 2007 og frá árinu 2006 sinnt kennslu og haft umsjón með prófun í einkamálaréttarfari á námskeiðum til öflunar héraðsdómslögmannsréttinda.

Nanna Magnadóttir lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1998 og meistaraprófi í alþjóðlegum mannréttindalögum frá Raoul Wallenberg stofnun Háskólans í Lundi árið 2004. Þá öðlaðist hún málflutningsréttindi sem héraðsdómslögmaður árið 2001. Á árunum 1998 - 2001 var hún aðstoðarmaður héraðsdómara og árin 2001 - 2002 lögfræðingur hjá embætti umboðsmanns Alþingis. Árið 2003 hóf hún störf sem aðstoðarmaður í fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu og árið 2004 sem lögfræðingur í deild Evrópuráðsins um fullnustu dóma Mannréttindasáttmála Evrópu. Frá 2005 sinnti Nanna margvíslegum störfum á vegum Evrópuráðsins í Kósóvó og Sameinuðu þjóðanna á Balkanskaga og frá 2009 - 2013 starfaði hún sem aðalráðgjafi hjá Eystrasaltsráðinu í Stokkhólmi. Frá ársbyrjun 2014 hefur Nanna verið forstöðumaður og formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hún hefur að auki sinnt kennslu í lögfræði við lagadeild Háskóla Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira