Hoppa yfir valmynd
21. desember 2021 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Lilja Dögg skipar verkefnastjórn um úrbætur í öryggismálum ferðaþjónustunnar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að skipa verkefnastjórn til að móta tillögur um úrbætur í öryggismálum tengdri ferðaþjónustunni. Fyrirhugað er að í verkefnisstjórninni sitji fulltrúar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, sem stýri starfi hópsins, dómsmálaráðuneytinu, Ferðamálastofu, Ríkislögreglustjóra, Samtökum ferðaþjónustunnar, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Umhverfisstofnun.

,,Öryggismál eiga ávallt að vera í forgrunni. Undanfarin ár hafa stjórnvöld kappkostað að tryggja öryggi í ferðaþjónustu í samstarfi við greinina, meðal annars með bættum innviðum á ferðamannastöðum og stóraukinni fjárfestingu í samgöngukerfum landsins. Með nýrri verkefnastjórn í öryggismálum viljum við leggja skýrari áherslu á hvernig öryggi gesta á fjölsóttum svæðum er tryggt út frá aðstæðum hverju sinni. Ég bind miklar vonir við vinnu hópsins enda um virkilega mikilvægt mál að ræða,‘‘ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra.  

Ráðherra mun fela verkefnastjórninni að hafa samráð við þá hagaðila sem koma að öryggismálum ferðaþjónustunnar. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar verður að kanna hvenær hægt er að beita þeim heimildum sem eru til staðar til að loka fjölsóttum ferðamannastöðum og svæðum þegar öryggi og lífi fólks er stefnt í hættu, meta hvort þörf sé á laga eða reglugerðarbreytingum með tilliti til lokunar við ákveðnar aðstæður, skilgreina eftir því sem kostur er hvaða staðir teljast geta ógnað öryggi og lífi fólks umfram aðra og við vissar aðstæður og meta hvaða heimildir koma til greina á þeim stöðum sem falla undir skilgreininguna og sjónarmið um hvenær hægt er að beita þeim.

Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórnin skili ráðherra skýrslu um vinnu sína innan þriggja mánaða frá upphafi starfsins og að hún hefji störf í upphafi nýs árs.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira