Hoppa yfir valmynd
22. desember 2021 Félagsmálaráðuneytið

20 milljónum króna úthlutað til hjálparsamtaka sem veita mataraðstoð fyrir jólin

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, úthlutar samtals 20 milljónum króna fyrir jól í styrki til hjálparsamtaka sem styðja við viðkvæma hópa í samfélaginu um land allt, einkum með matarúthlutunum og ráðgjöf. Alls níu hjálparsamtök fá styrk til þess að geta stutt enn betur við skjólstæðinga sína en styrkirnir eru liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda um viðspyrnu við neikvæðum áhrifum Covid-19 faraldursins gagnvart félagslega viðkvæmum hópum. Þau hjálparsamtök sem fá styrk eru Hjálpræðisherinn, Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndir í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Akranesi, Fjölskylduhjálp Íslands, Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis og Kaffistofa Samhjálpar.

Hjálparsamtökin sinna umfangsmikilli jólaaðstoð á hverju ári og má gera ráð fyrir töluverðu álagi í ár sökum Covid-19 faraldursins. Margir þeirra sem leita sér aðstoðar samtakanna búa bæði við fátækt og félagslega einangrun. Hjálpræðisherinn og Kaffistofa Samhjálpar hafa undanfarin ár boðið upp á jólamáltíðir sem gestir geta notið í samveru við aðra, sem verða þó með breyttu sniði þetta árið sökum Covid-19.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra: „Ríkisstjórnin hefur frá upphafi faraldursins lagt mikla áherslu á að styðja við viðkvæmustu hópana í samfélaginu. Fyrir mörg getur þessi tími valdið kvíða og áhyggjum og það er því bæði mikilvægt og þarft að styðja við hjálparsamtök sem aðstoða bæði einstaklinga og fjölskyldur sem á þurfa að halda um jólin.“ 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira