Hoppa yfir valmynd
22. desember 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Tillögur ráðgjafa um þróun ferðamannastaða: Mikilvægast að hlúa að sérstöðu þeirra

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur nú birt niðurstöður og tillögur franskra ráðgjafa sem heimsóttu Jökulsárlón, Gullfoss, Geysi og Þingvelli í haust í tengslum við Vörðu, verkefni um heildstæða stjórnun áfangastaða. Meðal þess sem ráðgjafarnir leggja til er að hlúa að sérstöðu og staðaranda hvers áfangastaðar, hafa innviði lágstemmda og huga að miðlun menningararfs. 

Niðurstöðurnar byggja á vinnustofum sem haldnar voru á vegum Vörðu og voru leiddar af ráðgjöfum sem hafa unnið með álíka verkefni í Frakklandi sem kallast „Grand Sites de France.“

„Nú hefst afar spennandi vinna þar sem Geysir, Gullfoss, Jökulsárlón og Þingvellir halda áfram að vinna sig í átt að Vörðu titlinum. Vinnustofurnar og ráðgjöfin mun nýtast afar vel og hjálpa stöðunum að færast nær hugmyndafræðinni sem unnið er samkvæmt. Ég horfi til þess að ég geti kynnt fyrstu Vörðuna á nýju ári og jafnframt að hægt verði að taka nýja áfangastaði inn í ferlið sem er í stöðugri þróun,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra.

Auk ráðgjafanna og verkefnastjórnar Vörðu, sem samanstendur af fulltrúum atvinnuvega – og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis - og auðlindaráðuneytis, var lykilhagaðilum boðið að taka þátt í vinnustofunum þ.e. umsjónaraðilum staðanna, fulltrúum sveitarfélaga, áfangastaðastofu Suðurlands og rekstraraðilum þar sem við átti. 

Markmið vinnustofanna var að máta áfangastaðina við hugmyndafræði og viðmið Vörðu og að fá utanaðkomandi álit ráðgjafanna á ástand og þróun staðanna með hliðsjón af reynslunni í Frakklandi. Vinnustofurnar voru tvískiptar. Annars vegar var farið í vettvangsheimsóknir þar sem rýnt var í staðhætti, landslag, skipulag og innviðauppbyggingu og áhrif þessara þátta á upplifunina af stöðunum. Hins vegar voru haldnir vinnufundir þar sem leitast var við að móta sameiginlega sýn fyrir staðina til framtíðar. 

Niðurstöður og tillögur ráðgjafanna eru nú aðgengilegar á vef Vörðu. Þær munu nýtast í áætlanagerð sem mun hjálpa stöðunum að færast nær hugmyndafræðinni sem unnið er samkvæmt, þannig að þeir geti orðið Vörður innan ákveðins tíma.  

Um Vörðu og næstu skref

Vörður eru merkisstaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir. Vörður eru fjölsóttir áfangastaðir sem ferðamenn sækja allt árið um kring. Við umsjón þeirra er unnið að sjálfbærni á öllum sviðum, umhverfislegri, samfélagslegri og efnahagslegri.

Vinna við Vörðu hefur staðið yfir síðan í byrjun árs 2019 en verkefnið lýsir aðferðafræði sem snýr að því að móta umgjörð fyrir heildstæða nálgun áfangastaðastjórnunar. 

Varða er þróunarverkefni og voru fjórir fjölsóttir ferðamannastaðir valdir til að fara í gegnum þróunarferli verkefnisins til reynslu: Þingvellir, Gullfoss, Geysir og Jökulsárlón. 

Á næstu mánuðum mun verkefnastjórn Vörðu m.a. vinna að því að móta stjórnskipulag, umsóknar- og matsferli og endurskoða viðmið. Stefnt er að því að fyrsta Varðan verði kynnt til sögunnar á árinu 2022 og unnið verður að undirbúningi umsóknarferlis fyrir nýja áfangastaði.

www.varda.is

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum