Hoppa yfir valmynd
28. desember 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkur til Hjálparstarfs kirkjunnar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagamála- og vinnumarkaðsráðherra, og Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar við undirritun samningsins.  - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, hefur undirritað styrk upp á 10 milljónir króna til Hjálparstarfs kirkjunnar en markmiðið með styrknum er að efla félagslega ráðgjöf við notendur þjónustunnar. Hjálparstarf kirkjunnar veitir fólki sem býr við fátækt aðstoð í neyðartilfellum, og er lögð rík áhersla á að tryggja velferð barna og því er sérstaklega hlúð að barnafjölskyldum.

Þau sem hafa leitað stuðnings Hjálparstarfsins frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst hafa í auknum mæli haft þörf fyrir ráðgjöf og sálrænan stuðning á sama tíma og virða þarf reglur um fjarlægðarmörk og grímunotkun. Faraldurinn hefur haft áhrif á andlega líðan fólks og ásókn hefur aukist í félagslega ráðgjöf Hjálparstarfsins á þessu tímabili. Undanfarna 20 mánuði hefur fólk af 80 mismunandi þjóðernum leitað aðstoðar hjá Hjálparstarfinu.

Samkvæmt samningnum verður lögð sérstök áhersla á að efla félagslega ráðgjöf við unga námsmenn í viðkvæmri stöðu en vísbendingar eru um að áhrif þeirra samfélagsbreytinga sem urðu vegna Covid-19 hafi haft meiri áhrif á líðan ungmenna í framhaldsskólum en almennings í heild.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála-og vinnumarkaðsráðherra: „Covid-19 faraldurinn hefur reynt mikið á og langvarandi álag og streita á slíkum álagstímum sem þessum getur haft mikil áhrif á andlega líðan fólks. Hjálparstarf kirkjunnar hefur unnið ómetanlegt starf með stuðningi sínum við bæði ungt fólk og aðra viðkvæma hópa, og því er einkar ánægjulegt að geta stutt við og eflt það góða starf.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum