Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Staða íslenskrar ferðaþjónustu þokkaleg í árslok 2021: Viðspyrnuaðgerðir nema 31 ma. kr. og hafa skipt sköpum

Heimsfaraldurinn COVID-19 hefur enn mikil áhrif á íslenska ferðaþjónustu og hefur KPMG unnið fjárhagsgreiningu á áætlaðri stöðu íslenskrar ferðaþjónustu í árslok 2021. Greiningin er unnin í samstarfi við Ferðamálastofu og að ósk atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins en ráðuneytið óskaði eftir greiningu á stöðunni við árslok.

Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri og Benedikt K. Magnússon, sviðsstjóri hjá KPMG kynntu skýrsluna á opnum kynningarfundi Ferðamálastofu í dag eftir inngangsorð Lilju Daggar Alfreðsdóttur, ferðamálaráðherra. Fjárhagur íslenskrar ferðaþjónustu hefur verið til skoðunar á vegum Ferðamálastofu og KMPG frá því að áhrifa heimsfaraldurs COVID-19 fór að gæta hér á landi. Fyrsta skýrslan kom út í apríl 2020 og fjallaði um rekstur og afkomu í greininni. Næsta skýrsla kom út haustið 2020 og einblíndi á efnahag fyrirtækjanna og þá sérstaklega skuldastöðu. Nú er komin út þriðja skýrslan þar sem efnahagur ferðaþjónustunnar er greindur og horfur á hæfi greinarinnar til að standa undir skuldum metnar. Skýrslan byggir á ársreikningum ferðaþjónustufyrirtækja fyrir árið 2020 utan flugs og flugtengdrar starfsemi auk þess sem sótt er í margvíslegar aðrar upplýsingar um rekstur og efnahag greinarinnar.

„Skýrslan sýnir vel aðlögunarhæfni íslenskrar ferðaþjónustu og hversu markvisst fyrirtækin náðu að bregðast við þeim áföllum sem greinin hefur gengið í gegnum undanfarin misseri. Skýrslan varpar þó einnig ljósi á hversu viðkvæm s staðan en jafnframt hversu áhrifamiklar stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafa verið. Stjórnvöld munu áfram leita leiða til að koma til móts við íslenska ferðaþjónustu vegna afleiðinga heimsfaraldursins í víðtæku samráði við greinina,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra.

Þrátt fyrir mikil áföll og tekjufall undanfarin misseri hefur íslensk ferðaþjónusta náð að aðlaga sig að breyttum sviðsmyndum. Árið 2021 var staðan sú að 700 þúsund ferðamenn sóttu landið heim og ferðamenn dvelja lengur og eyða meiru. Þá er neyslumynstrið að breytast og er bílaleiga og veitingaþjónusta t.a.m. áberandi hærri á móti minni verslun og farþegaflutningum.

Meðal helstu niðurstaðna skýrslunnar er eftirfarandi:

  • Heildaráhrif stuðningsaðgerða stjórnvalda, utan skattafrestana og lánveitinga, eru metin rúmlega 23 ma.kr. árið 2020.  Stuðningsúrræði stjórnvalda árið 2021 eru metin um 8,2 ma.kr.
  • Árið 2020 fækkaði ferðamönnum um 75% frá fyrra ári sem hafði í för með sér 200 ma.kr. lækkun tekna milli ára og 40% fækkun stöðugilda í greininni.
  • Flest félögin glíma því við verulegt tekjufall, háan launakostnað og neikvæða afkomu. Bílaleigur eru undantekning þar á.
  • Þriggja ára eiginfjármyndun greinarinnar þurrkaðist út, þrátt fyrir stuðningsaðgerðir stjórnvalda.
  • Þótt líkur megi leiða að því að aðgerðir stjórnvalda hafi komið í veg fyrir fjölda gjaldþrota í greininni versnaði rekstrarafkomu (EBIT) greinarinnar um 46 ma. kr. milli ára og var neikvæð um 26,5 ma.kr. árið 2020.
  • Vaxtaberandi skuldir jukust um 23 ma.kr. á árinu og stóðu í 209 ma.kr. í árslok skv. ársreikningum félaganna að meðtöldum 30 ma.kr. skuldum við tengd félög.
  • Í lok árs 2020 bjuggu um 25% félaga við góða eða viðunandi fjárhagsstöðu en rúmlega þriðjungur þeirra voru of skuldsett eða með ósjálfbæran rekstur. Rekstur ársins 2021 bætti ekki stöðu þessara félaga sem skulda samtals 104 ma.kr.

Skýrsluna má nálgast hér á vef Ferðamálastofu

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum