Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2022 Utanríkisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Vinnudvöl ungs fólks í Bretlandi nú heimil

Vinnudvöl ungs fólks í Bretlandi nú heimil - myndCanva Studio/Pexels

Ungir Íslendingar geta nú sótt um dvalarleyfi vegna vinnudvalar ungs fólks í Bretlandi (Youth Mobility Scheme Visa). Ísland er fyrsta og eina ríkið á öllu EES-svæðinu sem hefur gert samkomulag þess efnis við Bretland. Að sama skapi geta breskir ríkisborgarar nú sótt um slík dvalarleyfi á Íslandi.

Í kjölfar útgöngu Bretlands úr ESB og EES þurfa allir sem vilja flytja til Bretlands að sækja um dvalarleyfi og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt nýju innflytjendakerfi Bretlands en samkomulagið auðveldar ungu fólki ferlið til muna.

„Þetta eru mikilvæg tímamót, sérstaklega fyrir ungt fólk, og til marks um áframhaldandi góð og náin samskipti Íslands og Bretlands“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Samkomulag um vinnudvöl ungs fólks var undirritað í júlí síðastliðnum. Það gerir ungu fólki kleift að flytjast að milli ríkjanna, stunda vinnu, kynnast landinu og menningu þess.

Á vef breskra yfirvalda má finna nánari upplýsingar um Youth Mobility Scheme Visa í Bretlandi.

Á vef Útlendingastofnunar er hægt að nálgast upplýsingar um umsóknir um dvalarleyfi vegna vinnudvalar ungs fólks á Íslandi. (Residence permit for Working Holiday / Youth Mobility)

Athuga skal að frá og með 1. janúar 2022 er samkomulaginu beitt að hluta til bráðabirgða þar til íslenskum lögum hefur verið breytt svo framkvæma megi það að fullu. Í kjölfar viðeigandi lagabreytinga verða aldurstakmörk breskra umsækjenda hækkuð úr 26 árum í 30 ár og heildarlengd heimilaðrar dvalar á Íslandi fer úr 12 mánuðum í 24 mánuði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum