Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Utankjörfundaratkvæðagreiðslur í sendiskrifstofum vegna tillagna um sameiningu sveitarfélaga

Utankjörfundaratkvæðagreiðslur í sendiskrifstofum vegna tillagna um sameiningu sveitarfélaga - myndHaraldur Jónasson / Hari

Utanríkisráðuneytið vekur athygli á atkvæðagreiðslum um tillögur um sameiningu sveitarfélaganna Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps, sveitarfélaganna Eyja – og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar, og sveitarfélaganna Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 19. febrúar næstkomandi. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna tillagnanna hófst 31. desember síðastliðinn og hægt er að greiða atkvæði hjá sendiskrifstofum Íslands. 

Vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar eru kjósendur vinsamlegast beðnir um að samband við sendiráð áður en mætt er á kjörstað. Hafa ber í huga að aðstæður sem hafa skapast vegna faraldursins geta haft áhrif á hvort hægt verði að kjósa hjá kjörræðismönnum.

Kjósendur eru beðnir um að framvísa íslenskum persónuskilríkjum með mynd, þ.e. vegabréfi eða ökuskírteini. Kosningarrétt eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa átján ára aldri á kjördag, 19. febrúar 2022 og sem skráðir eru með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi á Íslandi, þremur vikum fyrir kjördag. Sjá nánar 2.-3. grein laga um kosningar til sveitarstjórna.

Námsmenn á Norðurlöndum sem áttu síðast skráð lögheimili á Íslandi í umræddum sveitarfélögum og vilja vera teknir á kjörskrá í atkvæðagreiðslu vegna tillögu um sameiningu sveitarfélaganna geta sótt um það hjá Þjóðskrá.

Einnig eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili á Íslandi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, enda fullnægi þeir að öðru leyti framangreindum skilyrðum.

Atkvæðagreiðslan fer þannig fram að kjósandi stimplar eða ritar á kjörseðil orðið „já“ ef hann er hlynntur tillögu um sameiningu sveitarfélaganna eða „nei“ ef hann er mótfallinn tillögunni.

Athygli kjósenda er vakin á því, að þeim ber sjálfum að póstleggja atkvæði sín eða koma þeim á annan hátt í tæka tíð til viðkomandi kjörstjórnar á Íslandi. Kjósendur eru því hvattir til að vera tímanlega á kjörstað, þar sem póstsendingar gætu tekið lengri tíma en vant er.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum