Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Sóttvarnir í skólum: Samráð og vöktun

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra hefur sett á laggirnar nýtt vöktunarteymi um sóttvarnir í skólastarfi. Tilgangur þess er að stuðla að markvissum viðbrögðum sem best tryggja öryggi barna og ungmenna í skólum, og að þau fái notið lögbundinnar þjónustu menntakerfisins. Netfangið [email protected] er notað til þess að taka á móti fyrirspurnum og upplýsingum um álitaefni tengd sóttvörnum frá skólasamfélaginu.

Vöktunarteymið er samvinnuverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga, heilbrigðisráðuneytis, Grunns - félags fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennarasambands Íslands, almannavarnadeildar höfuðborgarsvæðisins og Skólameistarafélags Íslands undir forystu ráðherra mennta- og barnamála. Ráðherra fundar reglulega með hópnum og hafa fjórir fundir farið fram nú þegar. Á vefsíðunni mrn.is/skolastarf er að finna nýjustu upplýsingar um sóttvarnir í skólastarfi, og þar verður svörum við fyrirspurnum miðlað ásamt vikuskýrslum vöktunarteymisins.

Mennta- og barnamálaráðherra mun einnig funda reglulega með stærri samráðshópi fulltrúa skólasamfélagsins og annarra sem vinna að hagsmunamálum og velferð barna líkt og verið hefur frá upphafi faraldursins. Á fundi þess hóps í dag voru meðal annars Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

„Það er mikilvægt að við vöktum þróun mála í skólum með eins markvissum hætti og kostur er – við viljum geta leyst úr álitaefnum í skólastarfi af snerpu og jafnframt stuðlað að skjótri upplýsingagjöf. Okkar sameiginlega markmið er að halda skólum opnum, en jafnframt að halda skólum eins öruggum og kostur er á krefjandi tímum. Það kom skýrt fram á fundinum að samvinnan er fyrir öllu svo við getum brugðist við áskorunum sem skólasamfélagið okkar stendur frammi fyrir vegna COVID-19,“ segir Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum