Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Jökull Heiðdal Úlfsson skipaður skrifstofustjóri kjara- og mannauðssýslu

Jökull Heiðdal Úlfsson  - mynd
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur ákveðið að skipa Jökul Heiðdal Úlfsson í embætti skrifstofustjóra kjara- og mannauðssýslu ríkisins, sem fer með vinnuveitendahlutverk fyrir ríkið í heild. Skipunin er til fimm ára.

Jökull hefur yfir 20 ára reynslu af stjórnunarstörfum hjá Arion banka m.a. sem forstöðumaður mannauðs og forstöðumaður á þróunar- og markaðssviði. Þá hefur hann einnig reynslu af eigna- og sjóðastýringu sem forstöðumaður í eignastýringu Arion banka og sem framkvæmdastjóri Stefnis hf. Að undanförnu hefur hann starfað sjálfstætt við ráðgjöf á sviði stefnumótunar, mannauðsmála og innleiðingu straumlínustjórnunar. Jökull er með cand. oecon próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og námskeiði í stjórnun hjá INSEAD. 

Alls bárust 17 umsóknir um embættið en þrír umsækjendur drógu umsókn sína til baka. Hæfnisnefnd sem skipuð var af fjármála- og efnahagsráðherra til að meta hæfni og hæfi umsækjenda skilaði greinargerð sinni til ráðherra í samræmi við reglur nr. 393/2012.

Kjara- og mannauðssýsla ríkisins er ráðuneytisstofnun og er hluti af fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Hún fer með vinnuveitendahlutverk fyrir ríkið í heild og er leiðandi við mótun mannauðs- og kjarastefnu fyrir ríkið og stofnanir þess og fylgir framkvæmd hennar eftir. Hlutverk KMR er að stuðla að framþróun í starfsumhverfi hjá ríkinu og að styrkja forsendur þess að veitt sé skilvirk og vönduð opinber þjónusta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira