Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Yfirlýsing varnarmálaráðherra Norðurlandanna um stöðuna í og við Úkraínu

 

Versnandi staða öryggismála í og við Úkraínu var tilefni fjarfundar varnarmálaráðherra Norðurlandanna sem fram fór í dag á vettvangi norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO). Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók þátt í fundinum.

Sameiginleg yfirlýsing var gefin út í kjölfar fundarins þar sem áhersla er lögð á þá alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna hernaðaruppbyggingar Rússlands í og við Úkraínu, og mikilvægi þess að vinna að friðsamlegri lausn. Stuðningur ríkjanna við Úkraínu er áréttaður og ákall um að Rússland dragi hersveitir sínar frá þessu svæði. Þá er undirstrikað mikilvægi umleitana til að koma á samtali við Rússland um öryggismál í Evrópu, tvíhliða og á vettvangi þar til bærra alþjóðastofnana.

„Það er grundvallaratriði fyrir frið og öryggi í Evrópu að ríki álfunnar virði alþjóðlegar skuldbindingar sínar, virði landamæri og lögsögu annarra ríkja og rétt þeirra til að ákvarða eigin framtíð. Við norrænu ríkin erum sammála um að sú staða sem upp er komin sé mjög alvarleg,“ segir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Yfirlýsing norrænu varnarmálaráðherranna frá 21 janúar 2022.
Yfirlýsing ráðherranna frá 21. desember 2021.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira