Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

450 milljónir í viðspyrnuaðgerðir til tónlistar og sviðslista

  • Gripið til öflugra viðspyrnuaðgerða til að efla slagkraft tónlistar og sviðslista eftir erfiða tíma
  • Fólki undir 35 ára aldri eyrnamerkt listamannalaun í fyrsta sinn
  • Tónlistarsókn á erlendri grundu: sérstakt framlag til Útflutningsmiðstöðvar íslenskrar tónlistar, Tónlistarsjóðs og Tónverkamiðstöðvar

Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að verja 450 milljónum króna til viðspyrnuaðgerða í þágu tónlistar- og sviðslistageiranna vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Heimsfaraldurinn hefur haft afar mikil og neikvæð áhrif á hagkerfið síðastliðna 22 mánuði og samdráttur hefur haft gríðarleg áhrif á verðmætasköpun í menningargeiranum, sérstaklega þeim greinum hans sem byggja tekjuöflun sína að mestu á viðburðahaldi.

Þannig voru greiðslur til rétthafa í tónlist vegna tónleikahalds á árinu 2021 til að mynda 87% lægri en samsvarandi tekjur árið 2019. Þá hafa sjálfstæð leikhús og leikhópar farið verulega illa út úr faraldrinum vegna þeirra sóttvarnaaðgerða og lokanna. 

 

„Það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða sem miða að því að efla slagkraft tónlistar og sviðslistageiranna til framtíðar. Við veljum að fara þá leið að styrkja þá sjóði og samtök sem báðar greinarnar hafa aðgengi að og ná þannig til sem flestra. Við einsettum okkur að standa með menningunni í gegnum heimsfaraldurinn og eru þessar aðgerðir liður í því,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra. 

Viðspyrnuaðgerðirnar skiptast svo: 

Tónlist: 

  • Starfslaun listamanna í gegnum launasjóð tónlistarflytjenda: 75 m.kr. viðbótarframlag.
    Með því eru 150 mánaðarlaun tryggð til viðbótar við nýlega úthlutun sjóðsins til tónlistarflytjenda árið 2022. Þar af verður úthlutun 50 mánaðarlauna bundin því skilyrði að ungt tónlistarfólk undir 35 ára aldri njóti góðs af þeim.   
  • Greiðslur til tónhöfunda: 150 m.kr. viðbótarframlag.
    Tekjur tónhöfunda af tónleikahaldi rýrnuðu um 80% milli áranna 2019-2020 og álíka mikið árið 2021 m.v. árið 2020. Jafnframt varð mikið tekjutap vegna dansleikja á þessu tímabili, eða 55% á árinu 2020 m.v. 2049 og 82% þegar borin eru saman árin 2019 og 2021. Með framlaginu er hægt að styrkja rétthafa beint í gegnum STEF samtökin, en þeim verður falið að setja viðmið um úthlutun fjárins sem næðu hvorutveggja til þeirra sem höfðu tekjur af höfundaréttargjöldum fyrir heimsfaraldurinn og þeirra sem hafa komið nýir inn á markaðinn undanfarið. 
     
  • Tónlistarsjóður: 50 m.kr. viðbótarframlag.
    Sjóðurinn stuðlar að tónsköpun og kynningu. Sjóðurinn mun fá 50 m.kr. viðbótarframlag til að styðja við viðburðahald á árinu 2022 eftir erfiða tíð undanfarin misseri. 

  • Útflutningssjóður tónlistar: 40 m.kr. viðbótarframlag
    Sjóðurinn styrkir íslenskt tónlistarfólk við að koma tónlist sinni til stærri áheyrendahóps, á stærri markaði og auka möguleika þess á velgengni utan Íslands. Í fjárlögum 2022 er gert ráð fyrir að 19,5 m.kr. renni til útflutningssjóðs tónlistar. Með viðbótarframlagi er hægt að koma verulega til móts við íslenskt tónlistarfólk sem sækir fram á erlendri grundu.

  • Hljóðritasjóður: 40 m.kr. viðbótarframlag.
    Sjóðurinn eflir íslenska hljóðritagerð í tónlist með fjárhagslegum stuðningi við útgáfu hljóðrita

  • ÚTÓN: 10 m.kr. viðbótarframlag.
    Með viðbótarframlagi er hægt að koma verulega til móts við íslenskt tónlistarfólk sem sækir fram á erlendri grundu.

  • Tónverkamiðstöð: 10 m.kr. viðbótarframlag.
    Með viðbótarframlagi er hægt að koma verulega til móts við íslenskt tónlistarfólk sem sækir fram hérlendis sem og erlendis.

Sviðslistir

  • Starfslaun listamanna í gegnum launasjóð sviðslistafólks: 50 m.kr. viðbótarframlag.
    Með því eru 100 mánaðarlaun tryggð til viðbótar til umsóknar í sjóðinn en 50 þeirra verða bundin því skilyrði að ungt sviðslistafólk undir 35 ára aldri njóti góðs af þeim.

  • Sviðslistasjóður: 25 m.kr. viðbótarframlag til að styðja við viðburðarhald á árinu 2022.
    Sjóðurinn eflir íslenskar sviðslistir og stendur straum af öðrum verkefnum sem falla undir hlutverk og starfsemi á sviði sviðslista með úthlutun fjár úr sjóðnum til atvinnuhópa, en sjálfstæð leikhús og leikhópar hafa farið verulega illa út úr faraldrinum.

Ráðherra mun fela viðkomandi sjóðum og stofnunum úthlutun fjármagnsins og auglýsa þær. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum