Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Vegna fyrirspurna frá fjölmiðlum um setningu ráðuneytisstjóra

Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra hefur auglýst embætti ráðuneytisstjóra líkt og ætlunin var að gera eftir að nýtt ráðuneyti tók til starfa 1. febrúar sl. Nýtt ráðuneyti getur ekki tekið til starfa nema með ráðuneytisstjóra. Því var sett í embættið tímabundið til þriggja mánaða. Ekki er um að ræða fasta skipun heldur tímabundna setningu og tíminn nýttur til að auglýsa og ráða í  embætti ráðuneytisstjóra. Ráðherra hafði við stofnun nýs ráðuneytis einungis val um það að flytja embættismann varanlega í starfið eða setja einhvern til skamms tíma á meðan auglýst væri. 

Hægt er að flytja embættismann skv. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríksins nr. 70/1996 (hér eftir stml.) varanlega í starf ráðuneytisstjóra. Ef sú flutningsheimild er ekki nýtt þarf að auglýsa stöðuna. Það var ekki hægt fyrr en nýr forsetaúrskurður var gefinn út, sem gert var 31. janúar sl., en eftir útgáfu hans verður til lögformlegur grundvöllur til að auglýsa embætti ráðuneytisstjóra. Ef ekki tekst að ljúka skipunarferli áður en nýtt ráðuneyti tekur til starfa, sem eðli málsins samkvæmt var ekki hægt þar sem ráðuneytið var ekki til, þarf að setja einhvern til að gegna embættinu í millitíðinni. Setningin er til þriggja mánaða og verður það að teljast hæfilegur tími fyrir skipunarferli ráðuneytisstjóra með hliðsjón af 1. mgr. 37. gr. stml. 

1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 24. gr. laga nr. 70/1996 eru túlkaðar með þeim hætti að heimilt sé að setja einstakling til stutts tíma, þegar um nýtt embætti er að ræða, á meðan auglýst er eftir umsóknum um embætti ráðuneytisstjóra fyrir hið nýja ráðuneyti og ráðningarferli klárað. Tímabundin setning er því heimil skv. lögum og setningartími hæfilegur.

Ekki var hægt að auglýsa stöðuna þar sem ráðuneytið varð ekki formlega til fyrr en 1. febrúar sl. Mikilvægt er að hafa í huga að aðstæður við stofnun ráðuneytis og setningu ráðuneytisstjóra eru afar óvenjulegar. Birting forsetaúrskurðar var síðdegis þann 31.01.22 og var ráðuneytinu ætlað að taka til starfa morguninn eftir. Það hefur því ekki verið hægt að auglýsa laus störf í ráðuneytinu fyrr en við stofnun þess. Þar sem um nýtt embætti er að ræða og að umsóknarfrestur skv. 1. mgr. 7. gr. starfsmannalaga skal ekki vera skemmri en tvær vikur frá útgáfudegi Lögbirtingablaðsins. Þá skal ráðherra skv. 19. gr. laga nr. 115/2011 við skipun í embætti ráðuneytisstjóra skipa þriggja manna nefnd til að meta hæfni umsækjenda um embættið. Í þessu ljósi var ómögulegt að hefja ráðningarferli vegna nýs embættis ráðuneytisstjóra fyrr en eftir gildistöku forsetaúrskurðar nr. 5/2022. Ráðuneytisstjóri verður að vera til staðar þegar ráðuneyti hefur störf og því þurfti að setja í það starf á meðan auglýst er.

Ásdís Halla var ráðin sem verkefnastjóri við undirbúnings nýs ráðuneytis í byrjun desember 2021 og hefur því unnið með starfsmönnum ráðuneytisins, og í góðu samstarfi við Stjórnarráðið, að því að móta skipulag nýs ráðuneytis. Það lá því beint við að hún myndi halda því verkefni áfram og sinna um leið starfi ráðuneytisstjóra sem fer m.a. með yfirstjórn og stefnumótun ráðuneytisins undir yfirstjórn ráðherra á meðan embættið er auglýst.

Embættið hefur nú verið auglýst og umsóknarfrestur er til 28. febrúar nk.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum