Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ánægjuleg tímamót með uppsögn á lánalínu Icelandair með ríkisábyrgð

Icelandair tilkynnti í dag uppsögn á lánalínu með ríkisábyrgð, sem gilt hefur frá í september 2020 og kom til vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Ákveðið var síðsumars 2020, eftir viðræður milli Icelandair Group og íslenskra stjórnvalda, í samvinnu við viðskiptabanka félagsins, Íslandsbanka og Landsbankann, að útfæra lánalínu með ríkisábyrgð til félagsins. Íslensk stjórnvöld veittu félaginu ábyrgð á lánalínu allt að
120 milljónir bandaríkjadala, eða um 16,5 milljarða króna á þáverandi gengi og var ríkisábyrgðin 90%. Ábyrgðin var háð því að samþykki næðist milli aðila um skilmála hennar, samþykki Alþingis og að félagið næði markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár.

Lánalínunni var ætlað að vera lánveiting til þrautavara og ekki kom til nýtingar hennar. Með því að lánalínunni hefur verið sagt upp fellur ábyrgð ríkisins á henni úr gildi, en gert hafði verið ráð fyrir að hægt væri að draga á lánalínuna allt til loka september á þessu ári.

Í tilkynningu segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group að ábyrgð ríkisins hafi verið nauðsynlegur þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins, sem hafi - þrátt fyrir faraldurinn – flutt um 1,5 milljónir farþega og ráðið til sín hátt í eitt þúsund starfsmenn á liðnu ári.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra

„Við tókum ákvörðun um að veita Icelandair tímabundið skjól til að endurskipuleggja starfsemi sína þegar stórt og óvænt áfall reið yfir. Rétt eins og með víðtækum almennum stuðningi við heimili og fyrirtæki vildum við með þessu gera frekar meira en minna, og trúðum að það myndi skila sér þegar upp væri staðið.

Þessi stefna hefur skilað miklum árangri. Stórminnkað atvinnuleysi, aukinn kaupmáttur og útlit fyrir eðlilegri starfsemi lykilatvinnugreina á borð við ferðaþjónustuna bera þess öll merki. Þetta eru ánægjuleg tímamót og nú eru bjartari tímar fram undan.“ 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum