Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra undirritar samning um hringrásarhraðal

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra undirritaði í dag samning við Icelandic Startups um stuðning við hringrásarhraðalinn Hringiðu.

Til þess að færa íslenskt samfélag úr línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi þarf nýjar lausnir í allri virðiskeðju vöru og þjónustu, að þróa nýja tækni og aðlaga þekkta tækni að íslenskum aðstæðum.

Með viðskiptahraðli með áherslu á hringrásarhagkerfi má draga fram, efla og styðja nýja tækni og aðferðir sem raunverulega leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfismálum með það fyrir augum að þátttakendur verði í lok hraðals í stakk búnir að kynna verkefni sín fyrir fjárfestum og leggja fram vandaðar umsóknir um styrki í Evrópusjóði, svo sem LIFE og Horizon 2020.

Viðskiptahraðallinn byggir á alþjóðlegri fyrirmynd og býður upp á metnaðarfullan vettvang til vöruþróunar og góðan undirbúning fyrir fjármögnun. Þungamiðjan í hraðlinum felst í skipulögðum fundum þátttakenda með reyndum frumkvöðlum, fjárfestum og öðrum sérfræðingum. Um er að ræða sannreynt ferli þar sem allt að tíu sprotaverkefnum er veittur aðgangur að breiðu tengslaneti leiðbeinenda úr atvinnulífinu og markvissri þjálfun sem miðar að því að koma vöru á markað.

 „Til ná markmiðum okkar í umhverfismálum verðum við að nýta okkar helstu auðlind, hugvitið. Þessi undirritun í dag er liður í að styrkja frumkvöðla til góðra verka,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið leggur upp með að nýsköpun, rannsóknir og þróun leiki lykilhlutverk við umskiptin yfir í hringrásarhagkerfi. Meðal annars til að efla þessa þætti veitir ráðuneytið árlega styrki vegna hringrásarverkefna. Loftslagssjóður veitir jafnframt nýsköpunarstyrki og skarast loftslagsáherslur verkefna oft við hringrásaráherslur. Ísland tekur nú enn fremur þátt í LIFE-áætlun Evrópusambandsins. Með því hafa opnast möguleikar fyrir fyrirtæki, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og fleiri íslenska aðila til að sækja erlenda styrki til verkefna sem snerta hringrásarhagkerfið.

Gert er ráð fyrir hringrásarhraðallinn fari af stað í vor.

  • Ráðherra í heimsókn í Grósku, hugmyndahús. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum