Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Drög að reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða í samráðsgátt

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur sett til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda drög að nýrri reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim. Nýja reglugerðin kemur í stað reglugerðar um sama efni frá árinu 2002.

Leikvallatæki eru, samkvæmt reglugerðinni, þau tæki eða mannvirki sem börn leika sér í eða á utanhúss og innanhúss og sem almenningur hefur aðgang að.

Unnið hefur verið að endurskoðun gildandi reglugerðar í samráði við hlutaðeigandi stofnanir og stjórnvöld og í samvinnu við sérfræðing á sviði öryggi leikvallatækja og leiksvæða.

Markmiðið með nýrri reglugerð er að stuðla enn frekar að öryggi barna og annarra í leik og umgengni við leikvallatæki eða leiksvæði, með því að tryggja að þau séu hönnuð, frágengin og viðhaldið á öruggan og viðurkenndan hátt. Þó nokkrar viðamiklar breytingar eru frá gildandi reglugerð og skýrt kveðið á um ábyrgð rekstraraðila leiksvæða og leikvallatækja. Má þar nefna að aðalskoðun skal ætíð fara fram a.m.k. á þriggja ára fresti og oftar komi fram frávik með talsverðri eða hámarks áhættu eða ef rekstrarskoðun er ekki sinnt. Heilbrigðisnefnd metur alvarleika frávika og hvort það þurfi að fylgja þeim eftir. Einnig eru gerðar  kröfur um að rekstraraðilar haldi rekstrarhandbók sem heilbrigðisnefnd hefur aðgang að. Loks er kveðið markvissara á um þá staðla sem gilda um leikvallatæki.

Gert er ráð fyrir að reglugerðin nái utan um öll tæki sem falla undir þessa staðla, þ.á m. ærslabelgi, klifurveggi á leiksvæðum og vatnsleiktæki.

Frestur til að skila inn umsögnum um reglugerðardrögin er til og með 28. febrúar 2022.

Drög að reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim

  •   - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum