Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fyrningarálag vegna grænna eigna

Í Botnstjörn - myndHugi Ólafsson

Með nýrri reglugerð, sem nú er í samráðsgátt, er lagt til að nýta skattalega hvata til þess að ná markmiðum í umhverfismálum, svo sem að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Reglugerðin felur í sér fyrningarálag á svokallaðar grænar eignir, t.d. þær sem teljast til vistvænna samgangna eða eignir sem tengjast framleiðslu á endurnýjanlegri orku.

Reglugerðardrögin fela í sér að heimilt verður að reikna sérstakt fyrningarálag af lausafé sem nýtt er í atvinnurekstri og fellur undir eftirfarandi flokka:

 1. Vistvænar samgöngur.
 2.  Endurnýjanleg orka.
 3.  Hreinsun fráveituvatns og endurnýting úrgangs.
 4.  Sjálfbær og umhverfisvæn stýring á náttúruauðlindum

Falli eign ekki undir ofangreinda flokka þá er samt heimilt að reikna fyrningarálag ef eign telst sambærileg grænum eignum, en við mat á því þarf að uppfylla ákveðin skilyrði sem fram koma í reglugerðinni.

Markmiðin með setningu reglugerðarinnar eru:

 •  Að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
 •  Aðlögun að loftslagsbreytingum.
 •  Sjálfbær nýting og verndun vatns og sjávarauðlinda.
 • Umskipti yfir í hringrásarhagkerfi.
 • Auknar mengunarvarnir.
 • Aukin vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa.

Meðal þeirra almennu skilyrða sem uppfylla þarf til að eiga rétt á fyrningarálagi eru að eign sé í formi lausafjár sem telst til fyrnanlegra eigna, að hennar sé aflað á árunum 2021-2025 til að nýta í atvinnurekstri og að fjárfestingarákvörðun um öflun eignarinnar sé ótengd skyldu eða kröfum sem kaupanda ber að uppfylla í rekstri sínum. Þá má eignin ekki valda svo umtalsverðu tjóni gagnvart öðrum markmiðum í umhverfismálum að heildar jákvæð áhrif lækki um meira en helming þess sem ella hefði orðið.

Frestur til að senda inn umsögn um reglugerðardrögin er til 2. mars næstkomandi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum