Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Máli vegna skipunar ráðuneytisstjóra lokið með sátt

Sátt hefur náðst í máli sem varðaði mat hæfnisnefndar á einstaklingum við skipun ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneyti árið 2019.

Forsenda þeirrar ráðningar var mat ráðgefandi hæfnisnefndar sem hafði það hlutverk að meta hæfni umsækjenda, skilaði áliti sínu hinn 27. september 2019. Mat nefndin fjóra umsækjendur, tvo karla og tvær konur, mjög vel hæfa til að hljóta embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, þ.e. Jón Vilberg Guðjónsson, Karitas H. Gunnarsdóttur, Margréti Hallgrímsdóttur og Pál Magnússon. Einn umsækjenda sem metinn var vel hæfur, Hafdís Helga Ólafsdóttir, kærði niðurstöðuna til kærunefndar jafnréttismála á þeim grundvelli að hún hefði átt að vera í hópi þeirra sem metnir voru hæfastir. Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði kæranda í hag og mat það svo að kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um skipan í embætti ráðuneytisstjóra og því hafi kærði brotið gegn 1. mgr. 26. gr. jafnréttislaganna.

Í framhaldinu höfðaði fyrrum mennta- og menningarmálaráðherra mál gegn kæranda þar sem það var á þeim tíma eina leiðin til þess að hnekkja úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Gerðar hafa verið breytingar á stjórnsýslu jafnréttismála í kjölfar þessa máls. Framvegis getur kærunefndin sjálf verið aðili máls ef úrskurði nefndarinnar er skotið til dómstóla.

Málsaðilar hafa nú komist að þeirri niðurstöðu að ljúka málinu með sátt að frumkvæði Hafdísar Helgu. Í sáttinni felst greiðsla miskabóta að upphæð 2,3 milljónir kr. auk málskostnaðar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum