Hoppa yfir valmynd
3. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Hernaði Rússlands mótmælt á vettvangi Norðurskautsráðsins

Frá ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík 2021. - mynd

Aðildarríki Norðurskautsráðsins, utan Rússlands, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem tilefnislaus innrás Rússlands í Úkraínu er fordæmd. Í ljósi grófra brota Rússlands á alþjóðalögum munu fulltrúar ríkjanna ekki ferðast til Rússlands á fundi Norðurskautsráðsins, en Rússland fer nú með formennsku í ráðinu. Þá verði gert tímabundið hlé á þátttöku í öllum fundum ráðsins og undirstofnana þess. Aðgerðir Rússa hafi í för með sér alvarlegar hindranir fyrir alþjóðlega samvinnu, þar á meðal á norðurslóðum.

Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 sem vettvangur samstarfs um sjálfbæra þróun á norðurslóðum, með virkri þátttöku frumbyggja á svæðinu. Aðildarríki ráðsins eru átta: Bandaríkin, Finnland, Ísland, Kanada, Konungsríkið Danmörk, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Auk þess eiga sex samtök frumbyggja á norðurslóðum sæti í ráðinu. Ísland fór með formennsku í Norðurskautsráðinu áður en Rússland tók við keflinu á ráðherrafundi sem haldinn var í Reykjavík í maí á síðasta ári. 

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að aðildarríkin séu enn sannfærð um gildi Norðurskautsráðsins fyrir samstarf á norðurslóðum og ítreka stuðning sinn við ráðið og starfsemi þess. Ríkin beri ábyrgð gagnvart íbúum norðurslóða, þar á meðal frumbyggja, sem leggi sitt af mörkum til og njóti góðs af mikilvægu starfi ráðsins.

Hér má lesa yfirlýsinguna í heild.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum