Hoppa yfir valmynd
4. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Rússlandi meinuð þátttaka í starfsemi Eystrasaltsráðsins

Utanríkisráðherrar aðildarríkja Eystrasaltsráðsins (e. Council of the Baltic Sea States, CBSS) og háttsettur fulltrúi ESB á sviði utanríkismála hafa samþykkt sameiginlega yfirlýsingu þar sem tekin er ákvörðun um að meina Rússlandi þátttöku í allri starfsemi Eystrasaltsráðsins þar til annað verður ákveðið. Sama gildir um Belarús sem er áheyrnaraðili að ráðinu. Í yfirlýsingunni lýsa ráðherrar aðildarríkjanna og háttsettur fulltrúi ESB á sviði utanríkismála yfir samstöðu og algjörum stuðningi við Úkraínu. Þá er innrás Rússlands í Úkraínu harðlega fordæmd sem og aðstoð Belarús við innrásina.

Eystrasaltsráðið sem hefur aðsetur í Stokkhólmi hefur víðtækt verkefnasvið og innan þess fer fram margþætt efnislegt og faglegt samstarf aðildarríkjanna um málefni á borð við barnavernd, málefni ungmenna, aðgerðir gegn mansali, nýsköpun, sjálfbæra þróun og stjórnmálalegt samstarf.

Eystrasaltsráðið var stofnað 1992 og eiga þar sæti Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin, Pólland, Þýskaland og Rússland, auk Evrópusambandsins.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum