Hoppa yfir valmynd
4. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins funduðu um Úkraínu

Frá fundinum í dag. Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, á sjónvarpsskjánum - myndAtlantshafsbandalagið

Viðbrögð Atlantshafsbandalagsins vegna innrásar Rússlands í Úkraínu voru í brennidepli á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Brussel í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, sem sat fundinn, segir samstöðu bandalagsþjóðanna eindregna.

Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu ávarpaði fundinn sem utanríkisráðherrar Finnlands og Svíþjóðar tóku þátt í, auk utanríkismálastjóra Evrópusambandsins (ESB). Finnland og Svíþjóð taka nú aukinn þátt í samráði á vettvangi bandalagsins í ljósi þeirrar óvissu sem nú ríkir í öryggismálum Evrópu.

Bandalagsríkin hafa harðlega fordæmt árásir Rússlands á óbreytta borgara í Úkraínu og kallað eftir því að Rússlandsforseti dragi herlið sitt úr landinu. Bandalagsríkin taka fullan þátt í þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi og styðja við Úkraínu með margvíslegum hætti. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir aðgerðir bandalagsríkja til stuðnings Úkraínu mjög mikilvægar. „Atlantshafsbandalagið sem varnarbandalag er ekki aðili að átökunum, en það hefur í ljósi innrásar Rússlands styrkt varnir sínar í þeim bandalagsríkjum sem liggja hvað næst Rússlandi og Úkraínu. Samstaða ríkjanna um viðbrögðin er mjög eindregin og það segir sína sögu að þessar tvær vinaþjóðir okkar, Finnland og Svíþjóð, starfi nú nánar með bandalaginu en nokkru sinni fyrr.“

Á fundinum var einnig rætt um áhrif innrásar Rússlands í Úkraínu á öryggi bandalagsríkja og annarra Evrópuríkja til lengri tíma litið, ekki síst þau ríki sem standa utan Atlantshafsbandalagsins og ESB, á borð við Georgíu, Moldóvu og Bosníu-Hersegóvínu.

Þungar áhyggjur séu í hópi bandalagsríkjanna af áframhaldandi árásum Rússlands vegna hörmulega afleiðinga þeirra fyrir íbúa Úkraínu. „Ríkjunum ber saman um að úkraínska þjóðin hafi sýnt mikið hugrekki og staðist ágjöf Rússlands á aðdáunarverðan hátt hingað til,“ segir utanríkisráðherra.

  • Utanríkisráðherrar bandalagsríkjanna - mynd
  • Þórdís Kolbrún ásamt þeim Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, og Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands  - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum