Hoppa yfir valmynd
10. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál lögð fyrir Alþingi

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál var til umræðu á Alþingi í dag en skýrslan er sú fyrsta sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir leggur fram til Alþingis í embætti utanríkisráðherra. Ráðherra hóf ræðu sína á Alþingi á því að fjalla um horfur í alþjóðamálum. Þó svo að skýrslan miðist við almanaksárið 2021 var ekki hjá því komist að minnast á innrás Rússlands í Úkraínu og þá viðsjárverðu tíma sem við horfum nú fram á í öryggismálum í Evrópu. 

„Versnandi staða öryggismála hefur haft í för með sér aukin verkefni bandalagsríkja á Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum, og aukið umfang starfseminnar á öryggissvæðinu í Keflavík. Eins og sést hefur glöggt að undanförnu skipar Íslands sér dyggilega í hóp með lýðræðisríkjum sem fylkja sér virðingu fyrir mannréttindum, lýðræði, jafnrétti og frelsi. Það eru þeir þræðir sem eru samofnir öllu starfi Íslands á alþjóðavettvangi. Á vettvangi alþjóðlegra stofnana á borð við Sameinuðu þjóðirnar, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) og Evrópuráðið tala íslensk stjórnvöld skýrt fyrir þessum gildum,“ sagði ráðherra í ræðu sinni.

En þó svo að fátt annað en innrásin komist að á vettvangi utanríkismála um þessar mundir þá horfði Þórdís Kolbrún yfir breiðara svið og vék meðal annars að áhrifum heimsfaraldursins, sem setti svip sinn á árið 2021.

„Fyrir utan stríðsrekstur Rússa í Evrópu má nefna að áhrifa heimsfaraldurs gætir enn mjög. Truflanir á efnahagsstarfsemi í tengslum við faraldurinn hafa stuðlað að aukinni neyð, einkum í fátækari löndum. Eftir að heimsfaraldurinn skall á fjölgaði sárafátækum í fyrsta skipti í tvo áratugi. Nemur fjölgunin ríflega hundrað milljónum. Þá hefur víða orðið mikil röskun á skólagöngu barna, bólusetningar vegna alvarlegra smitsjúkdóma hafa komist í uppnám og bakslag orðið á sviði jafnréttis- og mannréttindamála,“ sagði Þórdís Kolbrún á Alþingi.

„Stjórnvöld í ýmsum ríkjum hafa skákað í skjóli þess að lýðræðislegt aðhald er þar lítið til þess að takmarka í nafni sóttvarna margvísleg einstaklingsbundin mannréttindi. Hið sama átti sér stað, í mismiklum mæli, um heim allan, þar á meðal í löndum þar sem virðing fyrir borgaralegum réttindum á djúpar rætur í samfélagi og þjóðarsál. Ég hef lýst áhyggjum mínum af þessari þróun og því hversu takmörkuð umræða hefur átt sér stað um skerðingu þessara réttinda,“ sagði utanríkisráðherra jafnframt.

Í máli sínu vék ráðherra einnig að þróunarsamvinnu, einni af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu, en þar eru heimsmarkmið Sameinuðu eftir sem áður höfð að leiðarljósi.

„Framlög til þróunarsamvinnu hækkuðu á árinu, eins og þau hafa gert síðastliðin ár. Stuðningur er við tvíhliða samstarfslönd, svæðisverkefni og fjölþjóðastofnanir á sviði þróunar- og mannúðarsamstarfs. Þá hefur vægi samstarfs við atvinnulífið og frjáls félagasamtök aukist til muna,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hún sagði norrænt samstarf vera einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu og minntist á mikilvægi þess þegar kemur að erfiðum viðfangsefnum borgaraþjónustunnar. 

„Óhætt er að segja að samstarf Íslands við Norðurlandaþjóðirnar sé ómetanlegt fyrir Ísland, ekki síst þegar á reynir. Þetta kemur ítrekað fram í borgaraþjónustuverkefnum á álags- og hættutímum, en borgaraþjónustan gegndi lykilhlutverki við brottflutning fólks frá Afganistan og í margvíslegum verkefnum í tengslum við heimsfaraldurinn,“ sagði utanríkisráðherra.
Þá fjallaði ráðherra einnig um endurnýjaða stefnu Íslands í málefnum norðurslóða og fund Norðurskautsráðsins síðastliðið vor.

„Þrátt fyrir takmarkanir og erfiðleika sem fylgdu því að reka formennsku í alþjóðastarfi á tímum heimsfaraldurs, tókst Íslandi bæði að ná sátt um sterka ráðherrayfirlýsingu Norðurskautsráðsins og fyrstu framtíðarstefnu ráðsins til tíu ára. Bæði yfirlýsingin og framtíðarstefnan leggja áherslu á loftslagsvána,“ sagði Þórdís Kolbrún og tók jafnframt fram að brýnt væri að Ísland tæki virkan þátt á alþjóðavettvangi að finna nýjar leiðir til þess að leggja sitt af mörkum í loftslags-, auðlinda-, og umhverfismálum.

Þórdís Kolbrún lagði áherslu á mikilvægi þess viðvarandi verkefnis að tryggja Íslendingum aðgengi að alþjóðlegum mörkuðum á sem bestum kjörum og að heimurinn allur væri nú eitt markaðssvæði.

„Því skiptir höfuðmáli að tryggja að íslensk framleiðsla og íslenskt hugvit hafi hindranalausan aðgang að sem stærstum markaði,“ sagði utanríkisráðherra. Þá væru frjáls alþjóðleg viðskipti og traust viðskiptakerfi undirstaða hagsældar á Íslandi sem mikilvægt væri að halda áfram að hlúa að og þróa í samræmi við efnahagslega hagsmuni samfélagsins í víðu samhengi. Í kjölfarið minntist ráðherra meðal annars á fríverslunarsamning Íslands við Bretland sem undirritaður var á síðasta ári og tryggir sömu kjör og áður eftir útgöngu Breta úr ESB.

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál er lögð fram í breyttu formi í ár og miðast nú við almanaksárið 2021. Með þessari breytingu verður unnt að leggja skýrsluna fram fyrr á árinu, gera vinnslu hennar auðveldari og lesturinn aðgengilegri, en einnig að auka til lengri tíma samræmi í þessari mikilvægu upplýsingagjöf. Skýrslu utanríkisráðherra má lesa í heild sinni hér á Stjórnarráðsvefnum.

 
  • Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál lögð fyrir Alþingi - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum