Hoppa yfir valmynd
10. mars 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vill að réttindi fatlaðs fólks til þátttöku í kosningum verði tryggð

Guðmundur Ingi Guðbrandson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur sent bréf til Landskjörstjórnar þar sem hann vekur athygli kjörstjórnar á mikilvægi þess að huga að því hvernig réttindi fatlaðs fólks til þátttöku í kosningum verði tryggð til jafns við aðra, í samræmi við jafnréttisákvæði 65. greinar stjórnarskrárinnar og 29. grein samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hefur ráðherra jafnframt boðið fram aðstoð ráðuneytisins við túlkun um ákvæði samningsins og gerð leiðbeininga um framkvæmd kosninga, sem unnar verði í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks.

Telur ráðherra mikilvægt að gerðar verði leiðbeiningar fyrir kjörstjórnir um hvernig aðstæður á kjörstað, í kjördeildum og kjörklefum skuli úr garði gerðar til að þær séu aðgengilegar öllum kjósendum og að gert sé ráð fyrir aðgengi hreyfihamlaðra. Þá þurfi kjörgögn að taka mið af ólíkum þörfum kjósenda og í því skyni þurfi meðal annars að huga að gerð blindraspjalda. Jafnframt þurfi starfsfólk að fá leiðbeiningar um rétt viðmót þegar fatlað fólk mætir á kjörstað.

Einnig þarf að gæta þess að upplýsingar um kosningarnar séu aðgengilegar fyrir alla, en til að tryggja það telur ráðherra rétt að gerðar verði leiðbeiningar um komandi sveitastjórnarkosningar, kjörgengi, kosningarétt og framkvæmd kosninga á auðlesnu máli. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum