Hoppa yfir valmynd
11. mars 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vinna hefst við endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, fékk samþykki ríkisstjórnar í morgun til að skipa stýrihóp ráðuneyta sem mun hafa það hlutverk að hafa yfirsýn yfir endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu í samræmi við stjórnarsáttmála. Fulltrúi frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu mun leiða vinnu hópsins en í honum verða einnig fulltrúar frá forsætisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu. Fyrir stýrihópinn mun svo starfa sérstakt sérfræðiteymi ráðuneytanna sem mun vinna að undirbúningi, útfærslum og innleiðingu breytinga á greiðslu- og þjónustukerfi almannatrygginga fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu og útfæra tímasettar aðgerðir þannig að breyta megi kerfinu í áföngum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkana er lögð rík áhersla á að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði einstaklinga með skerta starfsgetu. Sérstök áhersla er lögð á að bæta kjör þeirra sem lakast standa og auka tækifæri fólks til þátttöku á vinnumarkaði. Er stofnun stýrihópsins hluti af þeirri vinnu.

Sérstök áhersla verður lögð á að breytingarnar verði útfærðar og innleiddar í samráði við helstu hagsmunaaðila, svo sem Öryrkjabandalag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Geðhjálp, aðila vinnumarkaðarins, og í samstarfi við stofnanir, önnur ráðuneyti og aðra hlutaðeigandi aðila eftir því sem við á.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Eitt af aðal áherslumálum mínum í embætti félags- og vinnumarkaðsráðherra er að taka málefni örorkulífeyrisþega til endurskoðunar, með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði fólks með skerta starfsorku. Kerfið eins og það er í dag er of flókið og það hamlar atvinnuþátttöku og bættum lífskjörum. Rætt hefur verið um breytingar á kerfinu í langan tíma, margar nefndir skilað góðu starfi og því lít ég svo á að við séum að setja í framkvæmdagírinn og óska eftir góðu samstarfi við alla hlutaðeigandi í þessari mikilvægu vinnu. “

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira