Hoppa yfir valmynd
22. mars 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Minni áhrif hækkandi orkuverðs á Íslandi en annars staðar

Hækkandi orkuverð hefur minni áhrif á fjárhag heimila á Íslandi, þar sem kynding er almennt ekki háð olíu og gasi, en annars staðar. Bein hlutdeild olíu og orku í útgjöldum íslenskra heimila er mun lægri en víðast hvar og kostnaður hefur óvíða hækkað minna.

Þetta kemur fram í minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í ríkisstjórn í dag.

Síðastliðna tólf mánuði hefur kostnaður vegna kyndingar hækkað um 6% og samgönguútgjöld um 20% á sama tíma og kyndingarkostnaður í Evrópu hefur víða hækkað um tugi prósenta, ekki síst í þeim ríkjum sem nota gas til kyndingar. Þá hefur verð á bensíni og olíu víðast hvar hækkað um 20-35%, en hvergi meira í Svíþjóð - þar sem stjórnvöld kynntu nýlega aðgerðapakka sem ætlað er að stemma stigu við áhrifum hærra olíuverðs. Aftur á móti er vægi samanlagðra útgjalda heimila til kyndingar og samgangna afar lágt hér á landi í samanburði við flest ríki EES-svæðisins, en kostnaður vegna kyndingar og samgangna hefur óvíða hækkað minna en hér á landi.

 

Staða heimilanna heilt yfir sterk

Fjárhagur íslenskra heimila og innlend eftirspurn eru enn sterk. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 1,1% árið 2021, vanskil eru hverfandi og heimilin hafa aldrei metið stöðu sína sterkari samkvæmt nýbirtri lífskjararannsókn Hagstofunnar. Þá hafa innstæður heimila vaxið mikið.

Verðbólga hér á landi hefur verið drifin áfram af innlendum þáttum og birtist helst í hækkun húsnæðisverðs. Verðbólga mælist 6,2%, en 4,2% ef litið er fram hjá húsnæðislið vísitölu neysluverðs.

Almennar millifærslur eða skattaafslættir myndu enn auka verðbólgu og hækka vexti, en hærri vextir gætu eytt ábata heimila af millifærslum eða niðurgreiðslu að því er segir í minnisblaðinu.

Þar kemur fram að hækki alþjóðleg orkuverð enn og verðhækkanir á húsnæði haldi áfram sé mikilvægt að fylgjast með áhrifum á tekjulág heimili, sérstaklega þau sem eiga ekki húsnæði. Skuldsett heimili sem nýkomin eru inn á húsnæðismarkað gætu einnig lent í vanda ef ráðist er í ómarkvissar aðgerðir sem leiða til hærri vaxta. Ef talin er þörf á því að bregðast við áhrifum á þessa hópa þyrftu þær aðgerðir að vera afmarkaðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum