Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Vel heppnuð vinnustofa um þjónustutengda fjármögnun

Fyrirlesarar og þátttakendur í vinnustofu heilbrigðisráðuneytisins um þjónustutengda fjármögnun - myndHeilbrigðisráðuneytið

Stjórnendur og sérfræðingar stofnana og ráðuneyta sem koma að innleiðingu þjónustutengdrar fjármögnunar heilbrigðisþjónustu (DRG), sátu í liðinni viku tveggja daga vinnustofu sem heilbrigðisráðuneytið efndi til um þetta viðamikla verkefni. Erlendir sérfræðingar á þessu sviði frá alþjóðlegu samtökunum PCSI (Patient Classifications Systems International) voru í lykilhlutverki á námskeiðinu sem haldið var á Hótel Örk í Hveragerði. Samtökin eru vettvangur sérfræðinga sem starfa innan heilbrigðisstofnana, á sviði  stjórnsýslu og í fræðasamfélaginu um allan heim. Markmið þeirra er að styðja við notkun þjónustutengdrar fjármögnunar heilbrigðisþjónustu og styrkja vísindalegan þekkingargrunn þessarar aðferðafræði.

Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri bauð fyrirlesara og aðra þátttakendur velkomna við upphaf þess og fjallaði stuttlega um helstu áfanga við innleiðingu þjónustutengdrar fjármögnunar á Íslandi sem unnið hefur verið að um árabil. Fram undir þetta hefur DRG fyrst og fremst verið nýtt til kostnaðargreiningar í innri starfsemi Landspítala. Það voru því merk tímamót þegar undirritaður var samningur í lok síðasta árs milli Sjúkratrygginga Íslands og Landspítala um þjónustutengda fjármögnun hans og sambærilegur samningur við Sjúkrahúsið á Akureyri í janúar sl.

„Við getum öll verði sammála um að veiting góðrar heilbrigðisþjónustu er ein af grunnstoðum samfélagsins. Það er jafnframt ljóst að útgjöld til heilbrigðismála aukast stöðugt og eftirspurn eftir þjónustu sömuleiðis“ sagði Ásta m.a. og benti á meginástæðurnar, þ.e. lýðfræðilegar breytingar, og innleiðingu ýmissa tækninýjunga, nýrra lyfja og nýrra meðferða. Í þessu ljósi væri grundvallaratriði að nýta takmarkaða fjármuni sem best, meðal annars með því að auka gegnsæi og fyrirsjáanleika við fjármögnun og áætlanagerð. „Þetta eru einmitt markmið þjónustutengdrar fjármögnunar og ég er sannfærð um að námskeiðið hér í dag sé mikilvægur áfangi í innleiðingunni hér á landi“ sagði hún m.a. í ávarpi sínu.

Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er sett markmið um að fjármögnun allrar sjúkrahússþjónustu hér á landi verði þjónustutengd, enda séu greiðslukerfin þýðingarmikil tæki til að stýra þeim fjármunum sem varið er til heilbrigðisþjónustu í samræmi við þjónustuþörf. Þjónustutengd fjármögnun snýst um þetta með áherslu á markviss kaup á heilbrigðisþjónustu byggð á ítarlegri kostnaðar- og þarfagreiningu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira