Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2022 Forsætisráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Afmælishátíð „einvígis aldarinnar“ á Íslandi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, við undirritun samningsins í Hörpu - mynd

Forsætisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra og forseti Skáksambands Íslands undirrituðu í dag samning um styrk til 50 ára afmælishátíðar „einvígis aldarinnar“ í skák á Íslandi. Meðal fyrirhugaðra viðburða er heimsmeistaramótið í Fischer-slembiskák. Margfaldur heimsmeistari í skák Magnus Carlsen og núverandi heimsmeistari í Fischer-slembiskák Wesley So hafa þegar tilkynnt þátttöku.

Styrkurinn nemur 43 m.kr. og gildir frá 5. apríl út árið 2022. Auk heimsmeistaramótsins rennur styrkurinn til útbreiðslu á skák í skólum, alþjóðlegs kvennaskákmóts á ári kvennaskákar 2022 og til víðtækrar kynningar á einvígi aldarinnar. Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur eftirlit með framkvæmd samningsins.

Bobby Fischer og Boris Spassky háðu heimsmeistaraeinvígi í skák á Íslandi árið 1972. Viðburðurinn vakti heimsathygli þegar bestu skákmenn stórveldanna öttu kappi í Laugardalshöll á hápunkti kalda stríðsins. Einvígið kom Íslandi á kortið og er gjarnan kallað „einvígi aldarinnar“. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum