Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Ísland styður við móttöku flóttamanna í Moldóvu

Íslensk stjórnvöld tilkynntu í dag um 50 milljóna króna framlag til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) til að bregðast við álagi á innviði í Moldóvu vegna komu flóttamanna frá Úkraínu. 

María Erla Marelsdóttir, sendiherra Íslands í Berlín, tilkynnti um framlagið á áheitaráðstefnu til stuðnings Moldóvu. Utanríkisráðherra Þýskalands stóð fyrir ráðstefnunni í samstarfi við kollega sína frá Frakklandi og Rúmeníu, auk forsætisráðuneytis Moldóvu. Þegar hafa rúmlega 400 þúsund manns flúið yfir landamæri Úkraínu til Moldóvu frá því að innrás Rússlands hófst 24. febrúar síðastliðinn og fjórðungur þeirra fengið vernd í landinu. Aðrir halda áfram til annarra ríkja. Móldóva er fátækasta ríki Evrópu og þar búa um 2,6 milljónir. Því er mikilvægt að Ísland og samstarfsríki komi til móts við það mikla álag sem þar hefur skapast. 

Fulltrúar um fjörtíu ríkja tóku þátt í ráðstefnunni og söfnuðust áheit að því sem nemur 695 milljónum evra. Framlag Íslands er hluti af því framlagi sem forsætisráðherra tilkynnti um í tengslum við leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins 24. mars síðastliðinn. Íslensk stjórnvöld hafa nú veitt rúmlega hálfum milljarði króna til alþjóðlegs hjálparstarfs vegna stríðsins í Úkraínu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira