Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra staðfestir fyrstu íslensku vatnaáætlunina

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, staðfestir fyrstu íslensku vatnaáætlunina. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, hefur staðfest fyrstu íslensku vatnaáætlunina, vatnaáætlun Íslands 2022-2027, ásamt meðfylgjandi vöktunaráætlun og aðgerðaáætlun. Ná áætlanir þessar yfir allt grunnvatn og yfirborðsvatn hér á landi.

Vatnaáætlun felur í sér heildstæða stefnu stjórnvalda um verndun vatnsauðlindarinnar og byggir meðal annars á kortlagningu gagna, flokkun og greiningu á ástandi vatns og eiginleikum þess, auk vöktunar og aðgerða til að ná góðu ástandi vatns. Liður í því að ná umhverfismarkmiðum fyrir vatnshlot er að greina álag á vatn um allt land og flokka vatnshlotin eftir álagi, þ.e. í hættu eða í óvissu um að ná umhverfismarkmiðum sínum. Vatnshlot er grunneining vatns og er öllu vatni, bæði yfirborðs- og grunnvatni, skipt upp í vatnshlot byggt á landfræðilegum og vatnafræðilegum forsendum.

Með heildstæðri stjórn vatnamála er gert ráð fyrir að allir sem nota vatn eða valda álagi á vatn starfi saman þvert á mörk sveitarfélaga. Stjórn vatnamála er samvinnuverkefni stjórnvalda, stofnana, ráðgjafa, sveitarfélaga, heilbrigðisnefnda og náttúruverndar- eða umhverfisnefndar sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almennings.

„Það er ekki hægt að koma í orð mikilvægi vatns, auðvitað fyrir alla en það er sérstakt markmið okkar Íslendinga að vatnið okkar sé hreint og tært. Þó svo að við teljum okkur búa að einu besta vatni í heimi þá er alveg ljóst að við verðum að vita það með fullri vissu. Það eru miklir hagsmunir í húfi, ekki bara sem snúa að velferð okkar Íslendinga heldur einnig að grunnatvinnugreinum okkar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Umhverfisstofnun annaðist gerð vatnaáætlunar í samræmi við ákvæði laga um stjórn vatna mála. Bráðabirgðayfirlit vatnaáætlunar var birt og kynnt tveimur árum fyrir endanlega útgáfu áætlunarinnar. Vatnaáætlun ásamt fylgiáætlunum hennar fór jafnframt í opinbera kynningu.

Vatnaáætlun Íslands 2022-2027

Vöktunaráætlun vatnaáætlunar 2022-2027

Aðgerðaáætlun vatnaáætlunar 2022-2027

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum