Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Alþjóðaheilbrigðisdagurinn tileinkaður loftslagsbreytingum og lýðheilsu

Alþjóðaheilbrigðisdagurinn tileinkaður loftslagsbreytingum og lýðheilsu - myndAlþjóðaheilbrigðisstofnunin

Hinn 7. apríl ár hvert heldur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) stofndag sinn hátíðlegan með því að vekja athygli á tilteknu málefni sem er þýðingarmikið á alþjóðavísu fyrir heilsu einstaklinga og almennt heilbrigði. Að þessu sinni eru loftslagsmál í brennidepli og alvarleg áhrif mengunar á lýðheilsu. Stofnunnin áætlar að árlega megi rekja um 13 milljónir dauðsfalla til alvarlegra umhverfisáhrifa af mannavöldum. Sjónum er sérstaklega beint að mengun sem stuðlar að sjúkdómum á borð við krabbamein, astma og hjartasjúkdóma. Áhersla er lögð á hvernig samfélög þjóða geti tekið höndum saman um aðgerðir til að sporna við mengun og stuðla þannig að bættu heilbrigði og auknum lífsgæðum fólks um heim allan.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin bendir á að yfir 90% mannkyns búi við loftmengun vegna brennslu jarðefnaeldsneytis. Hlýnun jarðar valdi því að moskítóflugur dreifi nú sjúkdómum hraðar og víðar en áður hefur sést. Öfgafull veðrabrigði, ofnýting lands og vatnsskortur ógni einnig heilsu þjóða og enn fremur bendir stofnunin á þann vanda sem stafar af plastmengun í lífríkinu sem berist inn í fæðukeðjuna. Óhollar neysluvenjur hafa einnig skaðleg áhrif á heilsu fólks með aukinni tíðni krabbameina og vaxandi ofþyngd.

Markmiðið með alþjóðaheilbrigðisdeginum er að vekja athygli á því hvernig sporna megi gegn þeim vanda sem hér hefur verið lýst með aukinni vitund almennings og markvissum aðgerðum stjórnvalda sem miða að því að skapa heilbrigð samfélög og halda jörðinni hreinni.

  • Alþjóðaheilbrigðisdagurinn tileinkaður loftslagsbreytingum og lýðheilsu - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum