Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lilja fundar með iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og Jan Christian Vestre, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs - myndKH

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fundaði í dag með Jan Christian Vestre, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs. Fundurinn var hluti af ferð ráðherra til Danmerkur og Noregs til þess að efla umgjörð skapandi greina, hönnunar og arkitektúrs. Í fylgd með ráðherra voru einnig fulltrúar frá Hönnunarmiðstöð Íslands, Samtökum iðnaðarins og Íslandsstofu.

Ráðherrarnir ákváðu að skapa nýjan samstarfsvettvang um hönnun og skapandi greinar ríkjanna. Ljóst er að mýmörg tækifæri felast í aukinni samvinnu Norðurlandanna þegar kemur að skapandi greinum og nýsköpun.

Norðmenn hafa nýtt sér hönnun með markvissum hætti í að bæta opinbera þjónustu og auka skilvirkni atvinnulífsins. Ráðherrarnir ræddu einnig þær umfangsmiklu áskoranir sem alþjóðahagkerfið stendur frammi eins og til að mynda versnandi verðbólguhorfur á heimsvísu og áhrif framboðshnökra. Ráðherra fékk kynningu á fjölmörgum verkefnum á vegum norsku Hönnunarmiðstöðvarinnar sem styður við opinbera- og einkaaðila til þess að nýta sér tæki og tól hönnunar á öllum sviðum samfélagsins ásamt því að heimsækja norsku hönnunar- og arkitektafyrirtækin Halogen og Snøhetta sem hafa náð miklum árangri á sínum sviðum.

„Það hefur verið virkilega lærdómsríkt að heyra hvernig norsk stjórnvöld hafa séð tækifærin sem felast í að styðja við og efla hönnun til þess takast á við samfélagslegar áskoranir og auka lífsgæði. Þau leggja áherslu á að þetta sé hugarfarsbreyting og að það að fá hönnuði að borðinu strax í upphafi verkefna sé til þess fallið að bæta lokaafurðina, hvort sem um er að ræða í opinberri þjónustu eða annars staðar. Á endanum stuðlar slík nálgun að aukinni samkeppnishæfni samfélagsins sem er ávallt mikilvægt að hlúa vel að,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. 

„Aðferðir hönnunar og arkitektúrs eru öflug tæki til þess að takast á við flóknar áskoranir samtímans og í þeim felast tækifæri til nýsköpunar og verðmætasköpunar fyrir samfélag og fyrirtæki. Það er frábært að stjórnvöld sjái sóknarfæri og ætli sér stóra hluti á þessu sviði,“ segir Halla Helgadóttir framkvæmdarstjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Áhersla er lögð á eflingu hönnunar og hönnunartengdra greina í nýrri fjármálaáætlun. Gert er ráð fyrir að framlög til málefna hönnunar, þar með talið Hönnunarsjóðs og stofnunar og reksturs Rannsóknaseturs skapandi greina, hækki varanlega um 75 milljónir króna frá og með 2023.  Markmiðið með stofnun Rannsóknaseturs skapandi greina er að efla fræðilegar og hagnýtar rannsóknir í þeim ört vaxandi atvinnuvegi sem skapandi greinar eru. Þá verður ný Hönnunarstefna fyrir Ísland kynnt á næstunni.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira