Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Styrkjum úthlutað úr Loftslagssjóði í þriðja sinn ​

Loftslagssjóður hefur úthlutað 88 milljónum króna til 12 verkefna. Alls hlutu 6 nýsköpunarverkefni og 6 kynningar- og fræðsluverkefni styrk að þessu sinni, en þetta er í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. Hlutverk Loftslagssjóðs er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Meðal þeirra verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni eru umhverfisvæn lausn sem getur komið í stað sements, innleiðing kolefnislausrar álframleiðslu, verkefni tengd matarsóun og mælingum og vöktun á koldíoxíði úr jarðvegi.

Alls bárust 85 gildar umsóknir um styrki að þessu sinni og voru 41 þeirra vegna nýsköpunarverkefna og 44 umsóknir vegna kynningar- og fræðsluverkefna. Sótt var alls um rúmar 640 milljónir króna og hlutu 14% þeirra sem sóttu um í sjóðinn styrk að þessu sinni.

„Loftslagssjóður er mikilvægur liður í  aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. „Ísland ætlar sér að vera í fremstu röð ríkja við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Til að það markmið náist þurfum við margvíslegar lausnir og þar skipta nýsköpun og fræðsla miklu máli. Ég sendi styrkþegum hamingjuóskir.“

Loftslagssjóður heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, en Rannís annast rekstur hans. Stjórn Loftslagssjóðs tekur ákvarðanir um úthlutanir í samræmi við reglur sjóðsins.

Frétt og listi yfir styrkþega á vef Rannís.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum