Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Fulltrúar bandaríska sjóhersins og Atlantshafsbandalagsins funduðu með utanríkisráðherra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Eugene Black aðmírál 6. flota bandaríska sjóhersins og Daniel W. Dwyer, yfirmanni herstjórnarmiðstöðvar Atlantshafsbandalagsins í Norfolk.  - mynd

Utanríkisráðherra fundaði í dag með Eugene Black aðmírál 6. flota bandaríska sjóhersins og Daniel W. Dwyer, yfirmanni herstjórnarmiðstöðvar Atlantshafsbandalagsins í Norfolk. Black er stjórnandi varnaræfingarinnar Norður-Víkings sem nú stendur yfir en Dwyer er þátttakandi í henni sem fulltrúi Atlantshafsbandalagsins. 

Á fundinum var rætt um æfinguna þar sem meðal annars eru æfðar varnir sjóleiðina umhverfis Ísland, varnir neðansjávarmannvirkja svo sem fjarskiptakapla, varnir nauðsynlegustu innviða á Íslandi fyrir öryggi landsins, endurheimt innviða og landsvæða í kjölfar árása óvinveittra aðila, björgun óbreyttra borgara og viðgerð innviða sem skemmst hafa. Æfingin sem stendur til 14. apríl þykir ganga afar vel og mikilvægi hennar fyrir samstarf Íslands og Bandaríkjanna var undirstrikað.  

„Sem herlaus þjóð tryggir Ísland öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og á vettvangi alþjóðastofnana,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Þar skipta aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin meginmáli. Á æfingum eins og Norður-Víkingi þjálfast herir ólíkra bandalagsríkja í samskiptum við krefjandi aðstæður og getur slíkur undirbúningur reynst ómetanlegur ef efla þarf varnir eða viðbúnaðarstig á Norður-Atlantshafi.“

Einnig voru til umræðu öryggis- og varnarmál í Evrópu og aðgerðir Atlantshafsbandalagsins vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Stuðningur við Úkraínu og efling sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins voru rædd en bandalagið hefur aukið viðbúnað sinn vegna innrásarinnar, einkum í Austur Evrópu. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira