Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2022 Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Allt að 750 milljónir í aðgerðir til að bregðast við félags- og heilsufarslegum afleiðingum COVID-19

Allt að 750 m.kr. verður varið á þessu ári til sértækra aðgerða til að mæta félags- og heilsufarslegum afleiðingum COVID-19. Þetta var ákveðið á síðasta fundi ríkisstjórnarinnar fyrir páska. Stjórnvöld hafa frá upphafi heimsfaraldursins lagt áherslu á að vinna gegn félagslegum og heilsufarslegaum áhrifum hans, einkum á viðkvæma hópa og eru þessar aðgerðir liður í því. Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu hefur verið aukið en alls voru framlög til geðheilbrigðismála aukin um tæpa 2,2 ma.kr. á meðan faraldurinn stóð sem hæst en framlög til geðheilbrigðismála hafa og munu hækka varanlega í áföngum um 1.650 m.kr. frá 2019 til 2025.

Um er að ræða níu verkefni sem ráðist verður í á yfirstandandi ári til að styðja m.a. við aldraða, þolendur og gerendur kynferðis- og heimilisofbeldis, fatlaða, börn í viðkvæmri stöðu, til að stytta biðlista. Þá verður stutt við verkefni á sviði heilbrigðistækni, framlög veitt til geðheilbrigðismála fyrir börn og unglinga og til geðheilbrigðisteyma í heilsugæslunni. Verkefnin eru á ábyrgðarsviði fjögurra ráðuneyta en samráðshópur sem forsætisráðherra skipaði kallaði eftir tillögum ráðuneyta um aðgerðir til skemmri tíma. Vinna stendur einnig yfir við mat á nauðsynlegum aðgerðum til að bregðast við langtímaafleiðingum heimsfaraldurs.

Úttektir sem gerðar hafa verið sýna fram á að faraldurinn, sóttvarnaraðgerðir og sá efnahagslegi samdráttur sem fylgdi í kjölfarið hafa bitnað verst á fólki sem þegar glímdi við erfiðleika eða tilheyrir viðkvæmum hópum. Þá varpa viðhorfskannanir ljósi á mjög mismunandi reynslu fólks af faraldrinum eftir aldri, kyni, kynþætti, þjóðerni, starfsstétt og tekjum. Reynsla og rannsóknir í tengslum við fyrri samfélagsáföll sýna einnig fram á að áhrifin á geðheilbrigði þjóða geta verið veruleg og koma allajafna ekki fram fyrr en einhverju síðar. 

Yfirlit yfir verkefni ársins 2022:

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

  • Stuðningur við félagsstarf aldraðra, 60 m.kr.
  • Stuðningur við hópa í viðkvæmri stöðu, 80 m.kr.
  • Úrræði fyrir gerendur og þolendur kynferðis- og heimilisofbeldis, 45 m.kr.
  • Aukið félagsstarf fatlaðs fólks, 95 m.kr.

Mennta- og barnamálaráðuneytið

  • Stuðningur við börn í viðkvæmri stöðu, 130 m.kr.
  • Stytting biðlista vegna nauðsynlegrar þjónustu fyrir börn og barnafjölskyldur, 100 m.kr.

Háskóla-, vísinda- og nýsköpunarráðuneytið

  • Heilbrigðistækni til að auka skilvirkni og bæta þjónustu, 60 m.kr.

Heilbrigðisráðuneytið

  • Barna- og unglingageðdeild Landspítala og barna- og unglingageðteymi Sjúkrahússins á Akureyri, 60 m.kr.
  • Geðheilsuteymi í heilsugæslu, 120 m.kr.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira