Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Öryggis- og varnarmál í brennidepli í Washington

Þórdís Kolbrún og Victoría Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna. - mynd
Samstarf Íslands og Bandaríkjanna og áhrif innrásar Rússlands í Úkraínu á öryggis- og varnarmál í Evrópu voru til umræðu á fundum Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra með háttsettum embættismönnum í bandaríska stjórnkerfinu í gær og í dag. 

Þórdís Kolbrún átti í gær fund með Victoríu Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra sem ber ábyrgð á pólitískum málum og í dag fundaði hún með Dr. Colin Kahl aðstoðarvarnarmálaráðherra sem ber ábyrgð á stefnumótun. Þá var hún frummælandi á fundi hugveitunnar Wilson Center um áhrif ófriðarins í Úkraínu á Norðurslóðir.

„Bandaríkin eru náin og mikilvæg vinaþjóð okkar Íslendinga og milli okkar ríkir gagnkvæm virðing. Það finn ég vel á fundum með háttsettum embættismönnum hér í Washington. Eftir innrás Rússlands í Úkraínu finnum við því miður hversu nauðsynlegt það er að huga að öryggi og vörnum þjóðarinnar og taka ekki friði sem sjálfgefnum hluti. Varnarsamningurinn við Bandaríkin og aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu eru hornsteinar í okkar öryggisstefnu og það er ákaflega mikilvægt fyrir okkur að rækta samskipti við þær þjóðir sem hafa skuldbundið sig til þess að standa vörð um fullveldi okkar, landamæri og lögsögu ef þeim er ógnað. Það er líka mikilvægt að við Íslendingar sem herlaus þjóð gerum allt sem við getum til þess að leggja okkar af mörkum til að styðja við vina- og bandalagsþjóðir okkar,“ segir Þórdís Kolbrún.

Innrás Rússlands í Úkraínu og viðbrögð Íslands og Bandarikjanna við henni og stuðningur ríkjanna við Úkraínu voru megin viðfangsefni allra fundanna. Aðgerðir Atlantshafsbandalagsins vegna innrásarinnar, ekki síst aukinn varnarviðbúnaður í austur hluta Evrópu bar einnig á góma. Málefni norðurslóða þar sem meiri spennu verður vart voru meðal þess sem kom til umræðu sem og loftslagsmál og málefni Norðurskautsráðsins. 

„Loftslagsmál skoðast í auknum mæli í samhengi öryggis- og varnarmála. Þær miklu umhverfisbreytingar sem eru að eiga sér stað á norðurslóðum hafa víðtæk áhrif á samfélög okkar hvort sem litið er til efnahags, samfélagsgerðar eða öryggis,” segir Þórdís Kolbrún. 

Utanríkisráðherra tekur þátt í fundi Alþjóðabankans og mun heimsækja Sameinuðu þjóðirnar eftir helgi.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira