Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2022 Innviðaráðuneytið

Eftirlit með öryggi vegamannvirkja aukið

Innviðaráðuneytið hefur undanfarið unnið að setningu reglna um sjálfstætt eftirlit með öryggi vegamannvirkja og drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 866/2011 um öryggisstjórnun vegamannvirkja hafa nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila inn umsögn er til og með 6. maí nk.

Markmiðið með breytingum er að efla enn frekar eftirlit með öryggi vegamannvirkja, m.a. með fjölbreyttar nýframkvæmdir og viðhald á vegum landsins. Breytingarnar fela annars vegar í sér skýr ákvæði um sjálfstætt eftirlit Samgöngustofu með framkvæmd öryggisstjórnunar vegamannvirkja. Hins vegar eru gerðar tillögur að breytingum vegna fyrirhugaðar innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins sem fjallar um öryggisstjórnun vegagrunnvirkja.

Helstu breytingar sem snúa að eftirliti Samgöngustofu með umferðaröryggisstjórnun vegamannvirkja eru:

  • Veghaldara verði gert að tilkynna Samgöngustofu um niðurstöður umferðaröryggisúttekta og það skýrt að gefi eftirlit Samgöngustofu með framkvæmd umferðaröryggisstjórnunar tilefni til geti stofnunin sjálf framkvæmt eða látið framkvæma umferðaröryggisúttekt á vettvangi.
  • Samgöngustofa gefi eða láti gefa út námskrá fyrir umferðaröryggisrýna í stað Vegagerðarinnar. Námskráin skuli þó unnin í samráði við Vegagerðina.
  • Bætt er við nýrri grein um eftirlit með umferðaröryggisstjórnun vegamannvirkja. Samkvæmt henni fer Samgöngustofa með eftirlit með framkvæmd umferðaröryggisstjórnunar í formi stjórnsýsluúttekta á verklagi við umferðaröryggisstjórnun. Samgöngustofa getur gefið fyrirmæli um úrbætur á verklagi ef þörf er á. Einnig er gert ráð fyrir að Samgöngustofa skuli óska eftir tímasettri úrbótaáætlun ef öryggi vegar er svo áfátt að hætta stafar af. Sé öryggi verulega ábótavant getur Samgöngustofa gefið út öryggisfyrirmæli um úrbætur.

Helstu breytingar sem lagðar eru til vegna fyrirhugaðrar innleiðingar tilskipunarinnar eru:

  • Gildissvið reglugerðar nr. 866/2011 er útvíkkað þannig að það tekur einnig til stofnvega utan samevrópska vegakerfisins.
  • Í stað þess að flokka skuli kafla vega eftir slysatíðni á þriggja ára fresti skal nú framkvæma umferðaröryggismat á vegakerfinu í heild sem reglugerðin tekur til á fimm ára fresti frá árinu 2024. Slíku mati skal fylgt eftir með annaðhvort markvissum umferðaröryggisúttektum eða beinum aðgerðum til úrbóta og að við slíkar aðgerðir skal taka tillit til þarfa óvarinna vegfarenda. Semja skal áhættumiðaða aðgerðaráætlun til að fylgjast með framkvæmd auðkenndrar aðgerðar til úrbóta.
  • Gerð er krafa um að öryggi vegkafla sem liggja að jarðgöngum sem falla undir ákvæði reglugerðar um öryggiskröfur fyrir jarðgöng nr. 895/2021 sé tryggt með sameiginlegum umferðaröryggisúttektum með öryggisfulltrúa jarðganga á minnst sex ára fresti.

Hægt er að skoða drög að breytingu á reglugerð í samráðsgátt stjórnvalda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira