Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Aukinn stuðningur við UNICEF, UN Women og UNFPA

Þórdís Kolbrún og Sima Sami Bahous, framkvæmdastjóri UN Women. - mynd

Þátttaka Íslands og stuðningur við starf Sameinuðu þjóðanna auk stríðsins í Úkraínu voru til umræðu á fundum Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra með  stjórnendum Sameinuðu þjóðanna í dag og í gær. Þar tilkynnti hún einnig að Ísland muni auka framlög sín til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), UN Women og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) á þessu ári. Stofnanirnar eru allar áherslustofnanir í þróunarsamvinnu Íslands. 

Þórdís Kolbrún ræddi við Aminu J. Mohammed, aðstoðarframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og Abdulla Shahid, forseta allsherjarþingsins um mikilvægi þess að standa vörð um alþjóðasamstarf í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu og mæta afleiðingum hennar bæði fyrir Úkraínu og önnur svæði í heiminum, með skilvirkri neyðar- og mannúðaraðstoð. Þá fundaði hún með Emine Dzhaparova, varautanríkisráðherra Úkraínu um átökin í landinu. Þórdís Kolbrún kom á framfæri upplýsingum um yfirgnæfandi stuðning íslensku þjóðarinnar við málstað Úkraínu, fordæmingu á framferði Rússa og eindregnum vilja til þess að styðja við úkraínsku þjóðina með ráðum og dáð.

„Árásarstríð Rússlands er á allra vörum hér í New York, bæði hryllilegar aðstæður íbúanna sem berjast fyrir lífi sínu og áhrif stríðsins á fæðuframboð og efnahagsmál í heiminum. Jafnramt er mikið rætt um áhrif innrásarinnar á það kerfi alþjóðlegs samstarfs og samvinnu sem tryggt hefur friðsæld í stórum hluta heimsins á undanförnum áratugum. Ég ítrekaði mikilvægi þess að styðja Úkraínu og standa vörð um alþjóðalög og stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna en Ísland hefur verið öflugur málsvari þeirra sjónarmiða hjá stofnuninni. Á sama tíma þarf að tryggja að alþjóðlegar afleiðingar stríðsreksturs Rússa bitni ekki á þeim ríkjum sem standa nú þegar höllum fæti vegna fátæktar eða átaka, þar gegna Sameinuðu þjóðirnar mikilvægu hlutverki,“ segir Þórdís Kolbrún.

Ráðherra flutti ræðu á ráðherrafundi um fjármögnun þróunar en Ísland og Grenada tóku að sér að leiða viðræður um niðurstöðuskjal fundarins. Hún heimsótti jafnframt helstu samstarfsstofnanir Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, þar með talið Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA), Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) og UN Women og fundaði með þeim um stuðning Íslands, helstu verkefni og viðbrögð þeirra við afleiðingum átakanna.

Ísland hlaut á dögunum viðurkenningu fyrir góða frammistöðu á sviði jafnréttismála sem gjafaríki hjá UNDP og veitti Þórdís Kolbrún þeim viðtöku í tengslum við heimsóknina.

Á fundi sínum með Nataliu Kanem, framkvæmdastjóra UNFPA skrifaði ráðherra undir nýjan samning við stofnuninna um stuðning um 200 þúsund Bandaríkjadali á ári til samstarfsverkefnis UNICEF og UNFPA um afnám limlestingar á kynfærum kvenna og stúlkna. Ísland hefur aukið kjarnaframlög sín til stofnunarinnar umtalsvert á síðustu árum, úr 31,5 milljón króna árlega á árunum 2017-2020 í 70 milljónir árið 2021. Nú hefur verið ákveðið að hækka kjarnaframlög Íslands til UNFPA í 120 milljón króna á þessu ári. 

Nýlega veitti Ísland fimmtíu milljón króna framlag til mannúðarverkefna UNFPA í Úkraínu og fjörtíu milljónir króna til UNFPA í Afganistan. Þá hafa UNFPA og utanríkisráðuneytið nýlega sett af stað nýtt samstarfsverkefni í Síerra Leóne sem hefur það að markmiði að útrýma fæðingarfistli í landinu á næstu árum. 

Þórdís Kolbrún fundaði einnig með Sima Sami Bahous, framkvæmdastjóra UN Women, í gær en fyrir stuttu var ákveðið að auka kjarnaframlag Íslands til stofnunarinnar um tólf prósent. Ísland veitir árlega kjarnaframlög til UN Women ásamt því að veita framlög í verkefni UN Women í Palestínu og Malaví og stuðning við griðarstaði sýrlenskra kvenna í flóttamannabúðum í Jórdaníu.

Á fundinum með aðstoðarframkvæmdastjóra UNICEF, tilkynnti utanríkisráðherra um fimmtán prósenta hækkun á kjarnaframlagi Íslands til UNICEF. Undanfarin ár hefur kjarnaframlag Íslands numið 130 milljónum króna, en mun á þessu ári nema 150 milljónum króna. Stærstu samstarfsverkefni Íslands og UNICEF hafa verið vatns- og hreinlætisverkefni í samstarfslöndum Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu og þá veittu íslensk stjórnvöld 250 milljónum króna í mannúðarákall UNICEF vegna flutnings á COVID-19 bóluefnum innan þróunarríkja. 

„Ástæða þess að við hækkum framlög okkar til þessara mikilvægu stofnana Sameinuðu þjóðanna er meðal annars til þess að bregðast við þeirri neyð sem víða blasir við, þar á meðal í Úkraínu og Afganistan. Ísland hefur lagt áherslu á að veita óeyrnamerkt kjarnaframlög til þess að tryggja fyrirsjáanleika og að stofnanirnar geti brugðist við þar sem neyðin er mest hverju sinni,“ segir Þórdís Kolbrún.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
16. Friður og réttlæti
5. Jafnrétti kynjanna
6. Hreint vatn og hreint

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira