Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2022 Dómsmálaráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Undirritun samnings um Björgunarmiðstöð á milli Kleppssvæðisins og Holtagarða

Guðrúnu Ingvarsdóttur, forstjóra Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra og Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu við undirritun samningsins - mynd

Undirritaður hefur verið samningur um 30 þúsund fermetra lóð fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila, svokallaða Björgunarmiðstöð, milli Kleppssvæðisins og Holtagarða. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra og Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu staðfestu samninginn með undirritun við athöfn á svæðinu við Holtagarða að viðstöddum fulltrúum viðbragðs- og björgunaraðila og Guðrúnu Ingvarsdóttur, forstjóra Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna. 

Um er að ræða makaskiptasamning við ríkið, þar sem Reykjavíkurborg framselur lóðarleiguréttindi að framangreindri lóð en fær í staðinn um 30 þúsund fermetra lóð við Borgarspítalann sem stefnt er því að skipuleggja undir aukna íbúðabyggð. 

Sameiginlegt húsnæði fyrir lögreglu og viðbragðsaðila

Á vegum ríkisins hefur frá júní 2020 verið unnið að undirbúningi byggingar sameiginlegrar aðstöðu fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu, einkum fyrir embætti ríkislögreglustjóra, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Landhelgisgæslu Íslands, Tollgæsluna, Neyðarlínuna, Slysavarnafélagið Landsbjörg og yfirstjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Áætlað er að þörf sameiginlegs húsnæðis fyrir starfsemina sé um 26 þúsund fermetrar. Áformað er að koma þessari almannaþjónustustarfsemi fyrir í nýbyggingu á lóðinni milli Kleppssvæðisins og Holtagarða en Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir mun halda utan um hönnunina og framkvæmdirnar. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum