Hoppa yfir valmynd
2. maí 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fyrirtæki ræða grænar lausnir á loftslagsmóti

Loftslagsmót, vettvangur fyrir fyrirtæki, stofnanir og aðra aðila í nýsköpun, fer fram þann 4. maí næstkomandi á Grand Hótel. Loftslagsmót er vettvangur fyrir aðila sem leita eftir, eða bjóða upp á ráðgjöf og lausnir, á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Hér er átt við hverskyns lausnir sem styðja við loftslagsvænni rekstur.

Markmið Loftslagsmóts eru að:

·        Hvetja fyrirtæki til að kynna sér þær grænu lausnir sem eru í boði.

·        Bjóða fyrirtækjum upp á vettvang til að kynna grænar lausnir og þjónustu.

·        Stuðla að jákvæðum aðgerðum í rekstri fyrirtækja í þágu loftslagsmála.

Loftslagsmót er haldið af Grænvangi, RANNÍS og EEN, í samstarfi við Festu og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Það var fyrst haldið í mars 2020 og aftur með rafrænum hætti árið 2021 og hafa til þessa verið um 400 fundir verið haldnir með um 100 stofnunum og fyrirtækjum.

„Loftslagsmál eru einn mikilvægasti málaflokkur samtímans og líkt og önnur ríki stendur Ísland frammi fyrir áskorunum í þeim efnum. Framundan eru græn orkuskipti og án öflugrar þátttöku atvinnulífsins og nýsköpunar munum við ekki ná þeim markmiðum sem sett hafa verið fram. Loftslagsmót gefur tækifæri til að tengja saman lausnir og þarfir á þessu sviði. Með samstilltu átaki getum við náð markmiðum okkar og ég hvet fyrirtæki og einstaklinga til að nýta tækifærið, styrkja tengslin og taka þátt í því að skapa betri framtíð.“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Allir sem skrá sig hafa þann kost að bóka fundi með öðrum þátttakendum á loftslagsmóti. Loftslagsmót 2022 leiðir saman fyrirtæki, stofnanir, frumkvöðla og aðra úr atvinnulífinu á stuttum fundum til að ræða málin og kynnast loftslagsvænum lausnum við hæfi. Eins gefst þátttakendum kostur á því að eiga fundi við valda aðila úr stuðningsumhverfinu sem veita ráðgjöf varðandi styrkjamöguleika, nýsköpunarþróun og vaxtarmöguleika á alþjóðavettvangi.

Loftslagsmót 2022 fer fram á Grand hótel þann 4. maí kl. 8:30-12:30.

Nauðsynlegt er að skrá sig til að taka þátt.  

Skráning á loftslagsmót

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira