Hoppa yfir valmynd
2. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Þrjátíu ár frá upphafi stjórnmálasambands Íslands og Georgíu

Í ár eru þrjátíu ár frá því Ísland og Georgía tóku upp formlegt stjórnmálasamband. Af því tilefni átti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra um liðna helgi fund með sendinefnd frá utanríkismálanefnd georgíska þingsins og Natela Menabde, sendiherra Georgíu gagnvart Íslandi. Á fundinum bar hæst innrás Rússlands í Úkraínu og áhrif hennar á Georgíu. Þá var aðild Georgíu að Atlantshafsbandalaginu til umræðu sem og tækifæri í samskiptum ríkjanna. Þórdís Kolbrún ítrekaði áframhaldandi stuðning Íslands við Georgíu og lagði áherslu á samstöðu.

„Innrás Rússlands í Úkraínu stríðir gegn öllum þeim gildum sem alþjóðasamfélagið stendur fyrir. Georgía og önnur nágrannaríki hafa þurft að þola íhlutanir Rússlands á sínu yfirráðasvæði í fjölda ára og gætir áhrifa stríðsins í þessum ríkjum,“ segir Þórdís Kolbrún. „Pólítísk samstaða er okkar mikilvægasta tól gegn háttsemi Rússlands“.

Í dag var efnt til opins fundar í Öskju vegna 30 ára stjórnmálasambands Íslands og Georgíu á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Sakartvelo vináttufélags Íslands og Georgíu. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Natela Menabde, sendiherra Georgíu gagnvart Íslandi fluttu opnunarávörp og Nikoloz Samkharadze, formaður utanríkismálanefndar þingsins í Georgíu, hélt erindi um Georgíu, Rússland og stríðið í Úkraínu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira